Fara í efni

Drög að framtíðarsýn íþróttamála í Suðurnesjabæ

Drög að framtíðarsýn íþróttamála í Suðurnesjabæ

Inngangur

Suðurnesjabær kynnir eftirfarandi drög að framtíðarsýn íþróttamála. Framtíðarsýnin var unnin í samráði við fjölbreyttan hóp íbúa, íþróttafélaga, skóla og annarra hagsmunaaðila. Framtíðarsýnin hefur fjögur markmið og undir hverju markmiði er fjallað um leiðir að því. Sérstök áhersla var lögð á að stuðla að aukinni iðkun barna og ungmenna í íþróttum.  Á grunni framtíðarsýnarinnar verður mótuð aðgerðaráætlun sem endurskoðuð verður árlega og tillögur samkvæmt henni lagðar fram. Unnin verði viðmið út frá stöðu mála í dag sem fylgst verður með reglulega til að meta árangur.

Leiðarljós

Suðurnesjabær hefur að leiðarljósi að vinna að öflugu íþróttastarfi í samvinnu íþróttafélaga og annarra hagsmunaaðila í sveitarfélaginu. Sveitarfélagið er aðili að heilsueflandi samfélagi og hefur heilsu og líðan íbúa í fyrirrúmi í stefnumótun og öllum aðgerðum. Stefnt er að því að bjóða upp á fjölbreytt tækifæri og góða umgjörð til íþróttaiðkunar. Þannig bjóðist íbúum að stunda heilbrigða hreyfingu og hafa aðstöðu til þess að kynnast íþróttagreinum og iðka þær. Mæta verður þörfum bæði afreksfólks og þeirra sem iðka íþróttir til eigin heilsueflingar og ánægju. Suðurnesjabær vill leggja sérstaka áherslu á að stuðla að aukinni iðkun barna og ungmenna í íþróttum og tekur undir forvarnargildi íþróttaiðkunar til bættrar lýðheilsu.

Markmið 1 - Að allir hafi tækifæri til að þroskast og eflast með hreyfingu og þátttöku í íþróttum

  • Að bjóða upp á leikvelli og leiksvæði í sveitarfélaginu sem verði í sífelldri þróun.
  • Að stuðla að uppbyggingu og skipulagi grænna svæða og útivistarsvæða sem henti fyrir fjölbreytta iðkun fólks á öllum aldri.
  • Að auka fræðslu um gildi íþróttaiðkunar.
  • Að auka samstarf milli aðila sem koma að skipulagningu, uppbyggingu og framboði íþrótta.
  • Að styðja við barnafjölskyldur í formi frístundastyrkja.
  • Að auka valmöguleika barna og ungmenna í íþróttum.
  • Að stuðla að þátttöku barna og ungmenna í íþróttastarfi með skipulögðum frístundasamgöngum.
  • Að stuðla að jafnrétti og jöfnum tækifærum.
  • Að taka tillit til fjölbreytni, fötlunar og raskana.
  • Að þátttaka í íþróttum sé aðgengileg og fyrir alla.

 Markmið 2 - Að bjóða nemendum grunn- og framhaldsskóla tækifæri til að tengja saman ástundun íþrótta og náms.

  • Að samþætting íþróttaiðkunar og skólastarfs verði skoðuð með tilliti til bæði yngri og eldri barna.
  • Að kynna og bjóða upp á námskeið í þjálfun og ýta undir áhuga með samþættingu íþrótta og skóla.

Markmið 3 - Að uppbygging íþróttamannvirkja, aðstöðu og umhverfis byggist á þörfum íbúa

  • Að efla samvinnu og samráð um uppbyggingu, viðhald og þróun íþróttamannvirkja til þess að auka þátttöku íbúa.
  • Að styðja við hagkvæman rekstur og starf íþróttafélaga með öflugu samstarfi/sameiningu.
  • Að gerð verði viðhaldsáætlun á þeim mannvirkjum sem fyrir eru og áætlun lögð fram um endurbætur, unnið verði í samstarfi við íþróttafélög og önnur hagsmunafélög.
  • Að framboð íþróttagreina verði aukið. Áhersla verði lögð á bæði aðstöðu fyrir keppnisgreinar og eins aðstöðu til annarrar og almennari iðkunar.

Markmið 4 - Að stuðla að öflugum mannauði og hvetja fólk til að taka þátt í verkefnum og starfi íþróttafélaga.

  • Að byggja upp mannauð í þau fjölmörgu störf sem vinna þarf í íþróttamálum, stundum sjálfboðavinna. Hvetja þarf fólk til að taka að sér þessi störf og styðja við framlag þeirra.
  • Að kynningarefni um starfsemi íþróttafélaga verði aðgengilegt á fleiri tungumálum og þannig stuðlað að aukinni þátttöku allra íbúa.
  • Að efla fræðslu til iðkenda og starfsfólks íþróttafélaga (launaðra og ólaunaðra) um einelti, kynferðislegt ofbeldi og aðra óæskilega hegðun í samræmi við opinbera stefnumótun (sbr. þingsályktun um forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun um aðgerðir fyrir árin 2021–2025).

Drög að framtíðarsýn íþróttamála í Suðurnesjabæ má finna hér inná betri Suðurnesjabær.