Fara í efni

Dagana 26. til 29. ágúst ætlum við að halda bæjarhátíð í Suðurnesjabæ

Dagana 26. til 29. ágúst ætlum við að halda bæjarhátíð í Suðurnesjabæ

Um er að ræða nýja bæjarhátíð sem nú er í undirbúningi en að skipulagningu og framkvæmd koma ýmsir hagsmunaaðilar úr sveitarfélagi, þ.á.m. grunnskólarnir, íþróttafélög, björgunarsveitir og ungmenni. Hátíðin heyrir undir Ferða-, safna- og menningarráð og munu starfsmenn stjórnsýslusviðs halda utan um skipulagið. Hátíðin er enn í mótun og enn á eftir að koma í ljós hvort umræddar dagsetningar verði þær sömu í framtíðinni en slíkt verður skoðað að hátíð lokinni og framtíðin mótuð enn frekar. Þó er ljóst að eitt af markmiðunum er að nýta það besta frá gömlu hátíðunum, Sandgerðisdögum og Sólseturshátíðinni.

Hátíðin mun eiga sér stað í öllum Suðurnesjabæ en eins og staðan er núna er gert ráð fyrir að aðalhátíðardagskráin á laugardegi fari fram Garðmegin. Þá er gert ráð fyrir að Sandgerðingar bjóði Garðbúum heim í vikunni sem hátíðarhöldin fara fram. Allt er þetta þó í mótun en vonir standa til að fyrstu hugmyndir af dagskrá fari að líta dagsins ljós þannig að íbúar geti fylgst með framgangi mála.

Nú hafa verið settir upp tvær hugmyndasíður á Betri Suðurnesjabæ þar sem óskað er eftir hugmyndum af viðburðum fyrir bæjarhátíðina og heiti á nýrri hátíð. Vonir standa til að íbúar og aðrir áhugasamir um góða bæjarhátíð í Suðurnesjabæ taki þátt.