Fara í efni

Covid smit á leikskólanum Gefnarborg

Covid smit á leikskólanum Gefnarborg

Í gær, þann 17. desember kom upp covid smit hjá starfsmanni leikskólans Gefnarborgar í Garði. Stjórnendur leikskólans, aðgerðastjórn Suðurnesjabæjar og fræðsludeild brugðust strax við, tilvikið var tilkynnt til viðkomandi yfirvalda og smitrakning fór strax af stað.  Starfsfólk leikskólans, ásamt nemendum hafa þegar farið í sóttkví og því verður leikskólinn lokaður fram að jólum.  Eftir það verður lagt mat á stöðu mála.

Íbúar í Suðurnesjabæ hafa sem betur fer ekki upplifað mörg smit covid fram til þessa, en það tilvik sem kom upp í dag sýnir enn og aftur hvað veiran er lúmsk og að hún getur leynst hvar sem er.  Það er að sjálfsögðu ákveðið áfall fyrir alla sem þurfa nú, viku fyrir jólahátíðina að fara í sóttkví og það fólk á allt fulla samúð annarra í samfélaginu vegna þess.  Það er ekki síður áfall fyrir starfsfólk og stjórnendur leikskólans Gefnarborgar að svona tilvik komi upp innan leikskólans, ekki síst á þessum tímapunkti.  Það er því mikilvægt að við íbúar Suðurnesjabæjar sendum góðar hugsanir til alls þessa fólks og styðjum við það eins og frekast er kostur.

Vonandi verður niðurstaðan sú að enginn einstaklingur hafi smitast af veirunni og allir geti átt gleðileg jól með sínum nánustu.

Af þessu tilefni er enn og aftur ástæða til þess að hvetja okkur öll til fyllstu varúðar, fara vandlega eftir öllum reglum og leiðbeiningum um smitvarnir og verja okkur eins vel og mögulegt er fyrir hugsanlegum smitum af veirunni.