Breytingar á starfsemi Suðurnesjabæjar vegna sóttvarnareglna.
Breytingar á reglugerð um takmörkun á samkomum vegna farsóttar taka gildi frá og með 10. desember 2020. Helstu breytingar á þeim sem varða starfsemi sveitarfélagsins eru að sundlaugar verða opnaðar á ný. Niður falla ákvæði um fjöldatakmörkun, nálægðartakmörkun og grímuskyldu barna sem fædd eru 2005 og síðar. Ákvæði um blöndun og hámarksfjölda leikskólabarna fellur brott. 2 metra regla og grímuskylda fellur niður hjá nemendum í 8. – 10. bekkjum grunnskóla. Nánari reglur um fyrirkomulag skólastarfs frá og með 1. janúar 2021 verða kynntar fljótlega.
Að öðru leyti hafa breytingar á reglugerð nú ekki í för með sér breytingar á þeim ráðstöfunum sem hafa verið í gildi varðandi starfsemi og þjónustu Suðurnesjabæjar. Áfram gildir hámarksfjöldi 10 manns í sama rými og 2 metra reglan, ásamt öðrum einstaklingsbundnum sóttvörnum. Fyrirkomulag á starfsemi ráðhúsa verður óbreytt, ráðhúsin verða áfram lokuð og starfsfólki er skipt upp í hópa þannig að hverju sinni er hluti starfandi í ráðhúsi en hluti sinnir störfum frá heimili.
Áfram eru líkamsræktarstöðvar lokaðar, en varðandi íþróttastarf að öðru leyti er vísað í reglugerð.
Suðurnesjabær hvetur alla til að fara eftir leiðbeiningum og reglum um sóttvarnir og samkomutakmarkanir. Einnig er hvatt til útiveru og líkamsæfinga utandyra.