Asahláka og leysingar – varúð gegn vatnstjónum
Asahláka og leysingar – varúð gegn vatnstjónum
19. janúar 2023
Á morgun föstudag og fram á laugardaginn er gert ráð fyrir hlýnandi veðri með mikilli rigningu og hvassviðri og má því búast við asahláku. Veðurstofan hefur gefið út gula veðurviðvörun um allt landið vegna þess.
Íbúar eru beðnir um að huga að niðurföllum við hús sín og nærumhverfi, gæta þess að niðurföll séu opin og að þau stíflist ekki. Mikill snjór er til staðar og má því búast við miklum leysingum til viðbótar við mikla rigningu. Jafnframt eru íbúar og vegfarandur hvattir til að gæta varúðar vegna mikillar hálku sem getur myndast við þessar aðstæður.
Vakin er athygli á eftirfarandi leiðbeiningum sem gott er að fara eftir til að koma í veg fyrir vatnstjón.
- Hreinsa frá öllum niðurföllum sem eru nærri húsi. Snjór og klaki eiga það til að bráðna fyrst meðfram útveggjum. Ágætt er að moka rásir svo vatn safnist ekki í tjarnir við hús.
- Hreinsa snjó og klaka frá anddyrum kjallara og niðurfalla þar við.
- Hreinsa frá þakrennum og niðurföllum þaka. Gefa þarf flötum þökum sérstaka athygli. Farið afar gætilega þegar unnið er við þök með tilliti til falls.
- Hreinsa snjó af svölum og tryggja að niðurföll virki.
- Það getur verið gott að setja salt og eða heitt vatn í niðurföll til þess að tryggja að vatn komist niður.