Fara í efni

Ársreikningur 2022 samþykktur samhljóða

Ársreikningur 2022 samþykktur samhljóða

Ársreikningur Suðurnesjabæjar 2022

Á fundi bæjarstjórnar Suðurnesjabæjar þann 3. maí 2023 var ársreikningur sveitarfélagsins fyrir árið 2022 samþykktur samhljóða. 

Helstu niðurstöður ársreikningsins eru að heildartekjur A hluta bæjarsjóðs voru kr. 5.173,1 milljónir, en í samanteknum reikningi A og B hluta kr. 5.450,7 milljónir.  Heildargjöld A hluta voru kr. 4.676 milljónir og í samanteknum reikningi A og B hluta kr. 4.808,1 milljónir.  Rekstrarafkoma fyrir afskriftir var kr. 497,2 milljónir í A hluta, en kr. 642,6 milljónir í samanteknum reikningi A og B hluta.  Rekstrarniðurstaða A hluta er jákvæð að fjárhæð kr. 19,9 milljónir, rekstrarniðurstaða í samanteknum reikningi A og B hluta er neikvæð um kr. 34,3 milljónir.

Heildareignir í samanteknum reikningi A og B hluta eru kr. 9.843,5 milljónir.  Heildar skuldir og skuldbindingar eru kr. 5.616,5 milljónir.  Lífeyrisskuldbinding hækkar frá fyrra ári og er kr. 1.264,4 milljónir í árslok 2022.  Langtímaskuldir við lánastofnanir eru kr. 3.438,5 milljónir og næsta árs afborganir langtímalána verða kr. 250,5 milljónir.  Eigið fé í samanteknum reikningi A og B hluta er kr. 4.227 milljónir.

 Hlutfall reglulegra tekna af heildarskuldum og skuldbindingum, eða skuldaviðmið A og B hluta er 67,07% en var 71,48% árið 2021.  Hlutfallið hjá A hluta er 44,47% en var 46,97% árið 2021.  Samkvæmt fjármálareglu í 64. gr. sveitarstjórnarlaga á þetta hlutfall ekki vera hærra en 150%.

Rekstur í samanteknum reikningsskilum A og B hluta skilaði kr. 682,9 milljónum í veltufé frá rekstri, sem er um 12,5% af rekstrartekjum og kr. 430,3 milljónum í handbært fé frá rekstri, sem er 7,9% af rekstrartekjum.  Fjárfesting í varanlegum rekstrarfjármunum A og B hluta nam kr. 462 milljónum.  Á árinu 2022 voru tekin ný langtímalán að fjárhæð kr. 250 milljónir.  Handbært fé lækkaði um kr. 81,2 milljónir frá fyrra ári og var handbært fé í árslok 2022 kr. 661,6 milljónir.

Íbúafjöldi í Suðurnesjabæ þann 1. desember 2022 var 3.910 og hafði fjölgað um 166 íbúa frá fyrra ári, eða um 4,4%.

Mikil verðbólga með tilheyrandi hækkun fjármagnskostnaðar og rekstrargjalda leiddi af sér helstu frávik í rekstri miðað við fjárhagsáætlun ársins.  Fjármagnsgjöld A og B hluta voru alls kr. 252,8 milljónum meiri en áætlun gerði ráð fyrir.  Hins vegar voru heildar tekjur A og B hluta alls kr. 318,5 milljónum hærri en áætlun gerði ráð fyrir og rekstrargjöld voru alls kr. 92,2 milljónum umfram áætlun.  Auknar tekjur komu helst fram í meiri útsvarstekjum en áætlað var og endurspeglar það m.a. aukinn kraft í atvinnulífinu, auk þess sem fjölgun útsvarsgreiðenda skilaði auknum tekjum.  Þá voru framlög frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga töluvert hærri en áætlun gerði ráð fyrir.  Rekstrarniðurstaða A og B hluta varð því kr. 40,8 milljónum lakari en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun ársins.

Í bókun bæjarstjórnar við afgreiðslu ársreikningsins kemur fram að bæjarstjórn telur rekstrarafkomu ársins mjög viðunandi miðað við aðstæður og þakkar starfsfólki sveitarfélagsins þeirra framlag í rekstri og starfsemi sveitarfélagsins við krefjandi aðstæður.  Þá bendir bæjarstjórn á að ársreikningur Suður Suðurnesjabæjar 2022 ber með sér að efnahagur sveitarfélagsins er traustur, sem skapar forsendur fyrir áframhaldandi uppbyggingu innviða og þjónustu við íbúa næstu misseri og ár.