Fara í efni

Áramót í Suðurnesjabæ

Áramót í Suðurnesjabæ

Undanfarin ár hefur skipulag áramóta í Suðurnesjabæ verið með þeim hætti að Björgunarsveitirnar Sigurvon og Ægir hafa séð um flugeldasýningar á gamlárskvöld. Þessar sýningar ásamt áramótabrennum hafa verið haldnar á víxl í Garði og Sandgerði ef veður leyfir, t.d. var haldið upp á síðustu áramót í Garði og því verður flugeldasýningin í Sandgerði þetta árið.

Brennusvæðin sem notuð hafa verið undanfarin ár í Sandgerði uppfylla ekki kröfur þar sem annað svæðið er mjög nærri mannvirkjum og matvælaframleiðslu ásamt því að vera geymslusvæði fyrir efni í sjóvarnir, á hinu svæðinu er mikil nálægð við nýja íbúðarbyggð. Eftir ítarlega skoðun var ljóst að ekki væri hægt að vera með brennu í þéttbýlinu í Sandgerði nálægt þeim stað sem flugeldasýningin verður eða við höfnina í Sandgerði.

Á fundi ferða-, safna- og menningarráðs fyrir jól var ljóst að ekki væri hægt að vera með áramótabrennu sem uppfyllir kröfur á aðgengilegum stöðum í Sandgerði. Tekin var því ákvörðun um að í stað þess að vera með áramótabrennu væri boðið upp á að mynda kyndlaröð við Sjávargötu á móti flugeldasýningunni. Kyndlar verða í boði Suðurnesjabæjar og verða afhentir á Sjávargötu til móts við smábátahöfnina þegar að flugeldasýningin fer fram kl. 20.00 á gamlárskvöld í Sandgerði.

Veðuraðstæður verða vonandi hagstæðar fyrir þennan skemmtilega viðburð og eru íbúar hvattir til að taka þátt kl.20.00 og tendra saman á kyndlum á meðan að flugeldasýning fer fram. Kyndlar verða afhentir 18 ára og eldri við Sjávargötuna í Sandgerði frá kl. 19:45 á gamlárskvöld.

Á nýju ári mun ferða,- safna- og menningarráð taka til skoðunar framtíðarfyrirkomulag á áramótabrennum í Suðurnesjabæ en nánar má sjá bókun ráðsins í fundargerð ráðsins hér: https://www.sudurnesjabaer.is/is/stjornsysla/fundargerdir/ferda-safna-og-menningarrad/447

Hlökkum til að sjá ykkur á gamlárskvöld og óskum ykkur gleðilegs nýs árs.