Amelía Rún íþróttamaður Suðurnesjabæjar fyrir árið 2022
Tilkynnt var um val á íþróttamanni Suðurnesjabæjar við hátíðlega athöfn í Vörðunni í Sandgerði fimmtudaginn 12. janúar. Við tilefnið var boðið uppá veitingar og tónlistaratriði frá Tónlistarskólanum í Sandgerði.
Amelía Rún Fjeldsted var kjörin íþróttamaður Suðurnesjabæjar árið 2022 en í umsögn kom m.a. fram að Amelía er knattspyrnukona sem hefur á undanförnum árum verið að festa sig í sessi í byrjunaliði Bestudeildarliðs Keflavíkur. Í sumar spilaði Amelía 17 leiki með Keflavík og skoraði í þeim tvö mörk, auk þess að spila einn leik í Mjólkurbikarnum. Amelía var í sumar valin í verkefni U19 ára landslið Íslands, og spilaði þar þrjá leiki og skoraði eitt mark. Þess má geta að Amelía var aftur valin í hóp fyrir næsta verkefni U19 ára liðsins. Þrátt fyrir ungan aldur var Amelía Rún að klára sitt fimmta tímabil í meistaraflokki en fyrsta leikinn spilaði hún aðeins 14 ára gömul. Amelía er virkilega flott fyrirmynd fyrir yngri kynslóðina í Suðurnesjabæ og sýnir og sannar að með metnaði og elju eru allir vegir færir.
Eftirfarandi íþróttamenn hlutu einnig tilnefningu og viðurkenningu fyrir góðan árangur árið 2022.
- Hammed Obafemi Lawal
- Sigurður Óskar Sólmundarson
- Salóme Róbertsdóttir