Fara í efni

Viljayfirlýsing um stofnun nýs íþróttafélags

Viljayfirlýsing um stofnun nýs íþróttafélags

Þriðjudaginn 29. október var undirrituð viljayfirlýsing um stofnun nýs íþróttafélags í Suðurnesjabæ, sem markar tímamót og nýtt upphaf í íþróttamálum sveitarfélagsins. Viljayfirlýsingin, sem er afrakstur samráðs knattspyrnufélaganna Reynis og Víðis ásamt Suðurnesjabæ og upphafið að metnaðarfullu framtaki sem miðar að því að sameina krafta og efla íþróttastarfsemi Suðurnesjabæjar til framtíðar.

Með stofnun þessa nýja félags er ætlunin að auka fagmennsku og gæði íþróttastarfsins og stuðla að fjölbreyttari íþróttagreinum fyrir íbúa bæjarins. Stefnt er að því að nýja félagið verði vettvangur fyrir íþróttaiðkun fólks á öllum aldri og úr öllum hópum samfélagsins. Það er von Suðurnesjabæjar að tilkoma þessa nýja félags verði til þess að styrkja tengsl innan samfélagsins, efla þátttöku og aðstöðu til íþróttaiðkunar.

Stýrihópur verður skipaður til að fylgja verkefninu eftir, með það að markmiði að útfæra stefnu og skipulag nýja félagsins. Hann mun jafnframt hafa víðtækt samráð við íbúa Suðurnesjabæjar og aðra hagaðila til að tryggja farsæla uppbyggingu félagsins. Stefnt er að stofnfundi hins nýja íþróttafélags í október 2025.

Þessi nýbreytni í íþróttamálum Suðurnesjabæjar gefur fyrirheit um sterkara og samheldnara íþróttasamfélag sem vonandi verður til hagsbóta fyrir samfélagið allt og styrkir framtíðar íþróttalíf í Suðurnesjabæ. Það má sanni segja að fram undan séu spennandi tímar í Suðurnesjabæ!