Við minnum á frístundastyrkinn 2025
Suðurnesjabær hvetur foreldra og forráðamenn til að nýta frístundastyrk ársins 2025 áður en árið rennur sitt skeið. Styrkurinn gildir til og með 31. desember og er ekki hægt að flytja hann milli ára.
Frístundastyrkurinn, sem er ætlaður börnum og ungmennum 18 ára og yngri með lögheimili í Suðurnesjabæ, er veittur til að styðja þátttöku í uppbyggilegu og skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi.
Upphæð frístundastyrksins árið 2025 er 48.000 krónur. Hægt er að nýta styrkinn í gegnum Sportabler appið. Jafnframt er hægt að senda kvittun fyrir greiðslu á afgreidsla@sudurnesjabaer.is. Kvittunin þarf að innihalda nafn iðkanda og staðfestingu útgefanda og þátttökugjöld þurfa að hafa verið greidd að fullu áður en sótt er um styrkinn. Styrkurinn getur aldrei orðið hærri en sú fjárhæð sem kemur fram á kvittun og gildir ekki fyrir búnað eða keppniskostnað.
Reglur um frístundastyrk Suðurnesjabæjar.