Úthlutun úr Menningarsjóði Suðurnesjabæjar fór fram í gær
Í gær þann 18. apríl var styrkjum úthlutað úr Menningarsjóði Suðurnesjabæjar. Athöfnin fór fram í Sjólyst þar sem boðið var upp á tónlistaratriði frá Tónlistarskóla Suðurnesjabæjar en hann Benedikt Natan Ástþórsson spilaði á gítar og söng lagið Traustur vinur eftir Jóhann G. Jóhannsson og þökkum við honum kærlega fyrir.
Menningarsjóður Suðurnesjabæjar byggir stoðir sínar á gjöf frá Litla leikfélaginu sem starfaði í Garði en skrifað var undir samkomulag um gjöfina í september 2020. Reglur sjóðsins má finna á heimasíðu Suðurnesjabæjar en ráðgert er að veita styrki úr sjóðnum einu sinni á ári.
Oddný Kristrún Ásgeirsdóttir formaður ferða-, safna- og menningarráðs ásamt ráðinu afhenti styrki úr Menningarsjóði Suðurnesjabæjar en að þessu sinni var úthlutað styrkjum fyrir 2,3 milljónir, eftirtaldir aðilar fengu úthlutun úr sjóðnum en ákveðið var að allar umsóknir sem bárust ráðinu hlytu styrk að þessu sinni.
- Bókasafn Suðurnesjabæjar fékk úthlutað 350.000 kr. styrk vegna viðburðar.
- Bryndís Jenný Kjærbo fékk úthlutað 300.000 kr. styrk vegna bókar.
- Guðmundur Magnússon fékk úthlutað 200.000 kr. styrk vegna tímaritsins Skiphóls.
- Kári Sæbjörn Kárason og Sigurbjörg Hjálmarsdóttir fengu úthlutað 400.000 kr. styrk vegna viðburðar.
- Magnea Tómasdóttir fékk úthlutað 350.000 kr. styrk vegna viðburðar.
- Níels Árni Lund fékk úthlutað 200.000 kr. styrk vegna bókar.
- Söngsveitin Víkingarnir fengu úthlutað 300.000 kr. styrk vegna tónleika.
- Þekkingarsetur Suðurnesja fengu úthlutað 200.000 kr. styrk vegna kynningar- og markaðsherferðar.
Í reglum sjóðsins segir m.a. að hlutverk Menningarsjóðs Suðurnesjabæjar er að styrkja menningarstarfsemi í Suðurnesjabæ með fjárframlögum og efla þannig einstaklinga og félagasamtök til virkrar þátttöku. Þá er gert ráð fyrir að sjóðurinn fái framlag úr fjárhagsáætlun á hverju ári en að auki getur sjóðurinn tekið við gjöfum sem ætlaðar eru til að efla menningarlíf í Suðurnesjabæ, beri svo við.
Mikil ánægja var með úthlutunina og er það ljóst að menningarlíf í Suðurnesjabæ mun blómstra á næstu mánuðum.
Styrkhöfum er óskað til hamingju og góðs gengis með verkefnin sín.