Fara í efni

Um álagningu gjalda hjá Suðurnesjabæ

Um álagningu gjalda hjá Suðurnesjabæ

Nokkur umræða hefur orðið um álagningu fasteignagjalda hjá Suðurnesjabæ þetta árið. Sú umræða hefur meðal annars verið tengd við umræðu og ákall aðila vinnumarkaðarins um að sveitarfélög stilli hækkunum gjaldskrár í hóf í baráttunni gegn verðbólgu.

Álagningarhlutfall fasteignaskatts vegna íbúðarhúsnæðis í Suðurnesjabæ hefur ekki breyst frá fyrra ári, er það sama og þá eða 0,28% af fasteignamati viðkomandi fasteignar. Sama á við um fráveitugjöld. Hins vegar var vatnsgjald hjá vatnsveitunni í Sandgerði lækkað um 13,75% í þeim tilgangi að jafna sem mest vatnsgjöld í báðum byggðakjörnum. Hækkun á álögðum gjöldum er því komin til vegna þess að fasteignamat íbúðarhúsnæðis hefur hækkað og það á að endurspegla verðmæti viðkomandi fasteigna. Þegar Suðurnesjabær varð til eftir sameiningu sveitarfélaganna Sandgerðisbæjar og Garðs var álagningarhlutfall fasteignaskatts 0,4% árið 2019. Vegna hækkandi fasteignamats árin þar á eftir hefur álagningarhlutfallið verið lækkað í áföngum niður í 0,28%.

Breytingar á fasteignamati eru á hverju ári mjög misjafnar eftir tegundum húsnæðis og eftir því hvar viðkomandi fasteign er staðsett, það er þekkt í öllum sveitarfélögum. Samkvæmt upplýsingum á vefnum fasteignamat.is hjá Húsnæðis-og mannvirkjastofnun var meðal hækkun fasteignamats íbúðarhúsnæðis í Suðurnesjabæ frá 2023 til 2024 20,3%. Meðal hækkun fasteignamats sérbýla í Sandgerði var 25,2% en fasteignamats fjölbýlis um 5,1%. Meðalhækkun fasteignamats sérbýla í Garði var 17,1% en fasteignamats fjölbýla um 11,5%. Þess má geta að breytingar á fasteignamati íbúðarhúsnæðis milli áranna 2022 og 2023 voru í hina áttina, þá var til dæmis meiri hækkun á fasteignamati sérbýla í Garði en var í Sandgerði.

Varðandi umræðu um að sveitarfélög taki ekki þátt í baráttunni gegn verðbólgu með því að stilla hækkunum á gjaldskrám í hóf, þá liggur fyrir að Suðurnesjabær hefur ekki hækkað gjaldskrár fasteignagjalda frá fyrra ári. Hækkun á álögðum fasteignagjöldum liggur fyrst og fremst og eingöngu í því að fasteignamat eigna hefur hækkað milli ára, sem endurspeglar aukið verðmæti viðkomandi eigna. Hækkanir á þjónustugjaldskrá voru fyrst og fremst í þeim tilgangi að gjöldin haldi raungildi sínu frá fyrra ári og var miðað við verðlagsbreytingar í því tilliti.

Að öðru leyti hafa sveitarfélög almennt lýst vilja til að endurskoða sínar þjónustugjaldskrár og það verði gert í tengslum við gerð kjarasamninga Sambands íslenskra sveitarfélaga við þeirra samningsaðila. Suðurnesjabær mun taka þátt í þeirri vegferð og vinna þannig með öðrum sveitarfélögum í baráttu gegn verðbólgunni.

Varðandi hækkun á gjöldum vegna hirðu og meðhöndlunar úrgangs, þá má vísa í frétt á vef Suðurnesjabæjar frá 31. janúar 2024, þar sem fjallað er um þær breytingar sem orðið hafa vegna breytinga á lögum um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003 en þær breytingar hafa valdið verulegri hækkun á þessum gjöldum í ár.

-  Fasteignagjöld 2024