Fara í efni

Tengjumst í leik í Suðurnesjabæ – næstu námskeið hefjast í janúar

Tengjumst í leik í Suðurnesjabæ – næstu námskeið hefjast í janúar

Fyrstu námskeiðum Tengjumst í leik í Suðurnesjabæ er nú lokið. Annað þeirra var haldið í Grænuborg og hitt í Gerðaskóla.

Tengjumst í leik (e. Invest in play) er námskeið fyrir foreldra og forráðamenn barna þar sem áhersla er lögð á jákvæð samskipti og samveru foreldra og barna í gegnum leik. Með því myndast góð tengsl milli foreldra og barna og samband þeirra styrkist. Efni og innihald námskeiðsins er byggt á gagnreyndum aðferðum og rannsóknum á alþjóðlegum vettvangi.

Á námskeiðinu er foreldrum kenndar áhrifaríkar aðferðir sem auka sjálfsöryggi í uppeldishlutverkinu, ásamt því að stuðla að bættri núvitund og draga úr streitu, auka sjálfstjórn og skilning á eigin þörfum sem og þörfum barna sinna. Rannsóknir hafa sýnt að börn sem eiga foreldra sem setið hafa námskeiðið öðlast aukið sjálfstraust, tilfinningalæsi og félags- og námsfærni. Foreldrafræðslan Tengjumst í leik hefur því margþættan ávinning fyrir börn, foreldra og samfélagið í heild. Hún stuðlar að aukinni sjálfstrú foreldra, betri samskiptahæfni barna og dregur úr áhættuhegðun barna og unglinga.

Mikil ánægja var meðal foreldra á námskeiðinu:

„Ég lærði helling um samskipti við barnið mitt og gat speglað mig við aðra foreldra. Ég fékk gagnleg verkfæri til að nota strax og mæli með námskeiðinu fyrir alla foreldra“.

“Námskeiðið vekur mann til umhugsunar um hversu mikilvægt það er að gefa sér að lágmarki 15 mínútur á dag í smá leik með börnunum og allir meðlimir heimilisins græða á því. Það sem stendur upp úr er að það fékk mig til að hugsa um það hvernig ég bregst við þegar það fer ekki allt eins og ég vil að hlutirnir fara. Hringurinn góði, hugsun-hegðun-tilfinningar.”

Næstu námskeið fyrir foreldra barna í Suðurnesjabæ hefjast í janúar og þá verður einnig hægt að velja Sandgerðisskóla sem staðsetningu. Skráning á námskeiðin hefst í byrjun janúar.