Fara í efni

Suðurnesjabær hvetur foreldra til samstöðu og ábyrgðar

Suðurnesjabær hvetur foreldra til samstöðu og ábyrgðar

Suðurnesjabær hefur sent bréf til allra foreldra og forráðamanna barna í grunnskólum bæjarins þar sem lögð er áhersla á mikilvægi samstöðu og utanumhalds um börn og ungmenni.

Tilefnið er meðal annars Vitadagar og aðrar bæjarhátíðir þar sem samfélagið kemur saman. Í bréfinu er minnt á að fjölskyldur verði samferða, bæði í gleði og þegar hátíðarhöldum lýkur til að tryggja öryggi barnanna og skapa jákvæðar minningar.


Í bréfinu segir meðal annars:
„Við viljum hvetja foreldra í Suðurnesjabæ til að standa saman, setja skýr mörk um útivistartíma, leyfa ekki eftirlitslaus samkvæmi og virða aldurstakmarkanir sem settar eru í lögum varðandi áfengi, vímuefni og nikótínnotkun.“

Einnig er lögð áhersla á að foreldrar fylgist vel með hvað börn þeirra eru að gera, hvar þau eru og með hverjum og að þeir ræði við börnin sín um heilbrigð sambönd, samþykki og mörk. Slík samstaða sé ein besta forvörnin og hafi þegar skilað árangri í samfélaginu.

Foreldrar eru fyrirmyndir barna sinna – þau horfa til okkar. Þegar við tölum saman, setjum skýr mörk og fylgjumst með börnunum okkar, þá eflum við verndandi þætti sem styrkja þau til framtíðar,“ segir í bréfinu.

Bréfið er hluti af markvissri forvarnarvinnu Suðurnesjabæjar sveitarfélagsins. Við vitum að þegar foreldrar tala saman og mynda sterka heild þá eflum við samfélagið allt og tryggjum öruggara umhverfi fyrir börnin okkar.


Að lokum er minnt á að Vitadagar eru ekki aðeins hátíð gleði og samveru, heldur einnig tækifæri til að minna á mikilvægi sameiginlegrar ábyrgðar.

Við berum öll ábyrgð!