Fara í efni

Stóra upplestrarkeppnin í Suðurnesjabæ og Vogum 2025

Stóra upplestrarkeppnin í Suðurnesjabæ og Vogum 2025

Stóra upplestrarkeppnin var haldin við hátíðlega athöfn þann 20.mars í Stóru-Vogaskóla þar sem Gerðaskóli, Sandgerðisskóli og Stóru-Vogaskóli tóku þátt. Keppnin hefst formlega þann 16.nóvember ár hvert og lýkur í mars við hátíðlega athöfn. Með þátttöku hafa skólarnir tekið ákvörðun um að gera upplestur að sérstöku læsishvetjandi viðfangsefni í 7.bekk.

Vandvirkni, ánægja og virðing er höfð að leiðarljósi þar sem nemendur fá þjálfun í að vanda flutning og framburð íslensks máls, læra að njóta þess að flytja texta og ljóð sjálfum sér og öðrum til ánægju ásamt því að bera virðingu fyrir móðurmálinu okkar, sjálfum okkur og öðrum. Stóra upplestrarkeppnin eflir sjálfstraust og framkomu nemenda.  Meðal annars er áhersla lögð á líkamsstöðu, raddstyrk, framburð, hraða, túlkun og samskipti við áheyrendur og má segja að verkefni dómara sé ærið þegar kemur að því að meta lesarana.

Fyrir lokakeppnina höfðu farið fram keppnir í hverjum skóla þar sem valdir voru þrír fulltrúar úr hverjum skóla til þátttöku. Keppendur í ár voru Magnús Smári Andrésson, Eva María Helgadóttir og Ásþór Fannar Hilmarsson frá Sandgerðisskóla, Brynja Karen Brynjarsdóttir, Birna Rán Hilmarsdóttir og Eyþór Breki Ívarsson frá Stóru-Vogaskóla og Einar Daði Elsuson, Elianna Rós Viray og Jóhann Bragi Freysson frá Gerðaskóla.

Elianna Rós Viray úr Gerðaskóla sigraði keppnina í ár. Ásþór Fannar Hilmarsson úr Sandgerðisskóla var í 2.sæti og Jóhann Bragi Freysson úr Gerðaskóla í 3.sæti. Allir keppendur fengu viðurkenningu, bók og rós fyrir stórkostlega framkomu ásamt því að sigurvegarar fengu peningagjöf.

Í ár fluttu nemendur brot úr bókinni, Draumurinn, eftir Hjalta Halldórsson ásamt því að flytja tvö ljóð, annað úr bókinni, Allt fram streymir, og hitt völdu þau sjálf. Gaman er að segja frá því að tveir keppendur sömdu sitt eigið ljóð. Þá var hver skóli með tónlistaratriði þar sem nemendur skólanna stigu á stokk og fluttu ljúfa og skemmtilega tóna. Í kaffihléi gæddu gestir sér svo á ljúffengum veitingum sem 7.bekkingar sáu um. Allir keppendur eiga hrós skilið fyrir góðan og fallegan upplestur, framkomu og hugrekki.

Mennta-og tómstundasvið Suðurnesjabæjar styrkir og skipuleggur Stóru upplestrarkeppnina.

Hér má sjá myndir frá keppninni.