Samkomulag um samstarf vegna Heillaspora
Suðurnesjabær og Miðstöð menntunar og skólaþjónustu hafa skrifað undir samkomulag um samstarf um innleiðingu Heillaspora sem heildræna nálgun til að styðja við farsæla þátttöku barna í inngildandi skóla- og frístundastarfi.
Heillaspor eru heildræn nálgun til að styðja við farsæla þátttöku barna í skóla- og frístundastarfi. Heillaspor styðja við innleiðingu á tengsla- og áfallamiðaðri nálgun í inngildandi skóla- og frístundastarfi. Heillaspor styðja við skólaþróun þar sem fræði og starfshættir á vettvangi eru tengd saman í gegnum sex leiðandi vörður Heillaspora.
Með undirskrift samkomulagsins skuldbindur Suðurnesjabær sig m.a. til að tryggja starfseiningum svigrúm til að stofna innleiðingarteymi með þátttöku þverfaglegs hóps starfsfólks sem fundar á tveggja vikna fresti. Miðstöð menntunar og skólaþjónustu skuldbindur sig m.a. til að tryggja aðgengi að faglegri starfsþróun með námskeiðum, fræðsluefni, leiðsögn og faglegum stuðningi.
Á meðfylgjandi mynd má sjá Magnús Stefánsson, bæjarstjóra Suðurnesjabæjar og Bergdísi Wilson, sviðsstjóra skólaþróunarsviðs MMS við undirritun samningsins.