Fara í efni

Salóme Kristín kjörin íþróttamaður ársins 2025 í Suðurnesjabæ

Salóme Kristín kjörin íþróttamaður ársins 2025 í Suðurnesjabæ

Kjör íþróttamanns ársins 2025 í Suðurnesjabæ fór fram við hátíðlega athöfn í Sandgerðisskóla miðvikudaginn 8. janúar. Þar var Salóme Kristín Róbertsdóttir kjörin íþróttamaður ársins fyrir framúrskarandi árangur og öfluga frammistöðu á liðnu ári.

Magnús Stefánsson, bæjarstjóri Suðurnesjabæjar, bauð gesti velkomna og flutti ávarp þar sem hann lagði áherslu á mikilvægi íþrótta- og tómstundastarfs fyrir samfélagið og hrósaði því metnaðarfulla og efnilega íþróttafólki sem býr í bæjarfélaginu. Fulltrúar íþrótta- og tómstundaráðs, Svavar Grétarsson formaður og Hulda Ósk Jónsdóttir, afhentu verðlaunin sem og viðurkenningar til þeirra íþróttamanna sem hlutu tilnefningu til íþróttamanns ársins 2025.

Salóme Kristín Róbertsdóttir, knattspyrnukona með Keflavík, hlaut titilinn íþróttamaður ársins 2025. Salóme hefur sýnt stöðugan og eftirtektarverðan árangur í íþrótt sinni og verið fyrirmynd bæði innan vallar sem utan. Hún hefur lagt hart að sér í keppni, sýnt fagmennsku og verið jákvæð fyrirmynd fyrir ungt íþróttafólk í Suðurnesjabæ. Salóme spilaði alla leiki Keflavíkur í Lengjudeildinni í sumar og var valin í U19 ára landsliðið fyrir 3 verkefni árið 2025. Hún var jafnframt valin besti leikmaður meistaraflokks kvenna hjá Keflavík.

Við sama tilefni hlutu eftirfarandi íþróttamenn tilnefningu og viðurkenningu fyrir góðan árangur á árinu:

  • Ástvaldur Ragnar Bjarnason: boccia (NES)

  • Hilda Rún Hafsteinsdóttir: knattspyrna (Keflavík)

  • Orfeus Andreou: handknattleikur (Víðir)

  • Hlynur Jóhannsson: golf (GSG)

  • Ólafur Darri Sigurjónsson: knattspyrna (Reynir)

Auk þess var veitt sérstök viðurkenning fyrir óeigingjarnt starf í þágu íþrótta- og tómstundamála, þar sem áhersla var lögð á mikilvægi sjálfboðastarfs og samfélagslegrar þátttöku. Sjálfboðaliði ársins 2025 var valin Sigríður Þórhalla Þorleifsdóttir. Sigríður hefur verið ómetanlegur sjálfboðaliði hjá Víði frá árinu 1998. Í gegnum árin hefur hún sinnt fjölbreyttum og krefjandi verkefnum af mikilli alúð, ábyrgð og ósérhlífni. Hún hefur lagt mikið af mörkum í Barna- og unglingaráði, foreldraráðum og einnig setið í aðalstjórn Víðis í um það bil fimm ár sem meðstjórnandi og nú sem varaformaður félagsins. Sigríður hefur ávallt sýnt einstakan dugnað, mikla vinnusemi og elju, og er sannarlega fyrirmynd annarra sjálfboðaliða.

Suðurnesjabær óskar þessum frábæru íþróttamönnum innilega til hamingju með árangurinn og óskar þeim góðs gengis í framtíðinni.