Fara í efni

Ráðning í starf sviðsstjóra mennta- og tómstundasviðs Suðurnesjabæjar

Ráðning í starf sviðsstjóra mennta- og tómstundasviðs Suðurnesjabæjar

Gengið hefur verið frá ráðningu í starf sviðsstjóra mennta- og tómstundasviðs hjá Suðurnesjabæ. Hafdís Guðrún Hilmarsdóttir hefur verið ráðin í starfið og mun hefja störf 1.apríl nk.

Hafdís hefur lokið B.Ed. gráðu í grunnskólakennarafræðum frá Kennaraháskóla Íslands, M.Ed. gráðu í náms- og kennslufræði við Háskóla Íslands og hefur auk þess lokið viðbótardiplómu í stjórnun menntastofnana frá Háskóla Íslands og er sem stendur í námi í opinberri stjórnsýslu við sama skóla.

Hafdís hefur starfað sem skólastjóri Fossvogsskóla síðastliðin tvö ár. Áður en Hafdís tók við starfi skólastjóra  starfaði hún sem verkefnastjóri verkefnisins „menntun fyrir alla“ hjá Skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar og þar áður sem sérfræðingur á skrifstofu skóla-, íþrótta- og æskulýðsmála hjá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu þar sem hún verkefnastýrði m.a. mótun menntastefnu til ársins 2030, mótunar aðgerðaráætlunar, innleiðingu menntastefnu  og endurskoðun aðalnámskrár gunnskóla auk annarra verkefna. Hafdís starfaði einnig sem sérfræðingur í læsi og verkefnastjóri yfir Lesferli hjá Menntamálastofnun í tvö ár og þar áður við kennslu og rannsóknir á lesskilningi og lestraráhugahvöt í doktorsnámi við Háskóla Íslands í þrjú ár. Hún hefur einnig 11 ára starfsreynslu sem umsjónarkennari við Laugarnesskóla.

Í störfum sínum hefur Hafdís öðlast víðtæka reynslu af þeim málaflokkum sem snerta starf sviðsstjóra mennta- og tómstundasviðs ásamt því að hafa góða reynslu af rekstri, stefnumótun og áætlanagerð.

Suðurnesjabær býður Hafdísi velkomna til starfa