Fara í efni

Neyðarstig almannavarna og hertar sóttvarnaráðstafanir

Neyðarstig almannavarna og hertar sóttvarnaráðstafanir

Eins og fram hefur komið er Covid-19 heimsfaraldurinn í mikilli virkni, bæði hér innanlands sem víða erlendis. Af þeim sökum hefur heilbrigðisráðherra gefið út uppfærðar reglur til að herða sóttvarnaráðstafanir á landsvísu. Jafnframt hefur hættustig Almannavarna verið fært upp á neyðarstig.

 Helstu breytingar á sóttvarnaraðgerðum sem tóku gildi á miðnætti 5. október 2020.
  • 10 manna fjöldatakmörkun verður meginregla.
  • Undantekningar frá meginreglu um fjöldatakmarkanir eru t.d. 30 manna hámark í jarðarförum og 10 manna hámark í tilteknum verslunum.
  • Breytingar hafa verið gerðar á grunnskólum og hafa grunnskólar látið foreldra/forráðamenn vita.
  • Í framhalds-og háskólum verða 25 manna fjöldatakmarkanir og er þar miðað við algenga bekkjastærð.
  • Líkamsræktarstöðvum verður lokað en sundlaugar verða áfram opnar með þrengri fjöldatakmörkunum sem miða við 50% af leyfilegum fjölda gesta samkvæmt starfsleyfi.
  • Krám, skemmtistöðum og spilasölum verður lokað.
  • Áfram verður eins metra reglan í gildi og grímuskylda þar sem ekki er hægt að tryggja eins metra fjarlægð milli einstaklinga.
  • Reglur um íþrótta-og menningarstarfsemi verða birtar með auglýsingu.  Ekki verður t.d. gert ráð fyrir áhorfendum á íþróttaviðburðum innan húss og starfsemi leikhúsa miðast við 100 manna hólf og grímuskyldu.
  • Að öðru leyti er vísað í reglugerð heilbrigðisráðherra um hertar sóttvarnaraðgerðir.

 

Neyðarstig Almannavarna

Frá miðnætti aðfararnótt 5. október tók gildi neyðarstig Almannavarna.  Almennt hefur það ekki áhrif á daglegt líf landsmanna. Hins vegar beinir sóttvarnalæknir því sérstaklega til þeirra sem teljast til viðkvæmra hópa, þeirra sem hafa undirliggjandi sjúkdóma og eldra fólks, að huga vel að sóttvörnum og forðast mannamót að óþörfu.

Áhrif á starfsemi Suðurnesjabæjar

Aðgerðastjórn Suðurnesjabæjar hefur yfirfarið hertar reglur um sóttvarnir, sbr. framangreint. Sem fyrr er lögð áhersla á órofna starfsemi og þjónustu sveitarfélagsins. Aðgerðastjórn hefur ákveðið að eftirfarandi breytingar á starfsemi gildi frá og mánudeginum 5. október 2020, þar til annað verður ákveðið:

  • Íbúum og þeim sem eiga erindi við starfsfólk í ráðhúsum er bent á að notast við síma eða tölvupóst. Einnig er hægt að bóka sérstaka viðtalstíma við einstaka starfsmenn eftir ástæðum.
  • Líkamsræktarstöðvum í íþróttamiðstöðvum Suðurnesjabæjar hefur verið lokað.
  • Starfsemi fjölskyldusviðs í Vörðunni í Sandgerði hefur verið skipt upp, en einstaklingum sem eiga erindi við starfsfólk fjölskyldusviðs er bent á að hafa samband um síma eða tölvupóst.
Frekari upplýsingar um breytingar á starfsemi og þjónustu Suðurnesjabæjar

Ef ákvarðanir verða teknar um frekari breytingar á starfsemi Suðurnesjabæjar, verður þeim komið á framfæri á heimasíðu sveitarfélagsins. Þær ráðstafanir sem nú gilda eru tímabundnar.

Almennar einstaklingsbundnar sóttvarnir

Framangreindar ráðstafanir eru samkvæmt leiðbeiningum og reglum sem nú gilda vegna Covid-19 faraldursins og eru í þeim tilgangi að draga sem mest úr smithættu til að tryggja sem best að starfsemi og þjónusta Suðurnesjabæjar haldist órofin. Suðurnesjabær biðst velvirðingar á þeim óþægindum sem þessar ráðstafanir kunna að fela í sér.

Suðurnesjabær hvetur alla til þess að fylgja leiðbeiningum um einstaklingsbundnar smitvarnir, handþvott, sprittun, halda eins metra regluna og nota andlitsgrímur þar sem þess þarf.

Við stöndum öll saman um að draga úr smithættu, við erum öll almannavarnir og sýnum áfram samstöðu og lágmörkum hættuna á að Covid smit dreifist um samfélagið.