Molta Molta Molta!
Tími vorverka er að ganga í garð, lóan er mætt og minnir okkur á bjartari tíma.
Íbúar hafa staðið sig afbragðsvel að flokka matarleifar og geta nú notið afrakstursins og fengið moltu úr GAJU, gas- og jarðgerðarstöð SORPU án endurgjalds.
Hægt verður að nálgast moltu á losunarstað fyrir garðaúrgang (jarðvegstipp) ofan Byggðavegar í Sandgerði frá og með föstudeginum 11. apríl eða á meðan birgðir endast.
GAJA molta er ætluð til notkunar utanhúss, hún nærir jarðveginn og gefur plöntunum næringu. Molta hentar vel til notkunar á lóðir, græn svæði í þéttbýli, beð og matjurtagarða. Moltan er kraftmikil og bein snerting óblandaðrar moltu við rætur plantna er ekki æskileg. Það er því mikilvægt að blanda moltuna við mold í hlutföllunum einn á móti þremur.
Þeim íbúum sem ætla að nálgast moltu er bent á að hafa meðferðis ílát undir hana, til dæmis fötur eða fjölnota poka.
En hvað er molta?
Molta er öflugur og hollur jarðvegsbætir sem nærir jarðveginn. Molta er ólík mold að því leiti að hún inniheldur ekki nein ólífræn efni, eins og sand eða möl, eins og moldin gerir. Molta inniheldur kolefni, köfnunarefni, fosfór og kalín, sem eru mikilvæg nærandi efni fyrir jarðveginn. Hún er rík af örveruflóru og m.a. þess vegna stuðlar hún að heilbrigðari jarðvegi og eykur hæfni hans til að binda kolefni, þannig leikur molta lykilhlutverk í að viðhalda heilbrigðu vistkerfi.
Nýttu þér þetta frábæra tækifæri og nældu þér í moltu úr matarleifunum þínum!
Takk fyrir að flokka