Fara í efni

Litla bæjarhátíðin 2021

Litla bæjarhátíðin 2021

Suðurnesjabær stóð fyrir „Litlu bæjarhátíðinni í Suðurnesjabæ“ sem stóð yfir í síðustu viku og lauk sl. sunnudag. Undirbúningsnefnd sem var skipuð fulltrúum Reynis og Víðis, björgunarsveitanna Ægis og Sigurvonar, Ungmennaráðs Suðurnesjabæjar, grunnskólanna og starfsfólki á stjórnsýslusviði, sem hélt utan um og stýrði verkefninu, vann mikið og gott starf við undirbúning og framkvæmd hátíðarinnar. Vegna síbreytileika faraldurs kórónuveirunnar og breytilegra sóttvarnareglna þurfti að bregðast við og gera breytingar á þeirri dagskrá sem upphaflega var unnið eftir. Upphaflega var miðað við að halda stóra og veglega bæjarhátíð þar sem vinir og vandamenn gætu hópast saman og gert sér glaðan dag. En, hertar sóttvarnareglur í sumar urðu til þess að gera varð breytingar á fyrirhugaðri dagskrá  Það er ánægjulegt að undirbúningsnefndin var mjög lausnamiðuð, með það að markmiði að allir viðburðir bæjarhátíðarinnar væru miðaðir við þær sóttvarnareglur sem í gildi eru og ákveðið að gera það besta úr stöðunni, vinna út frá því sem hægt var og halda það sem kallað var „Litla bæjarhátiðin í Suðurnesjabæ“. 

Niðurstaðan var sú að boðið var upp á bílabíó, óskalagatónleika í beinu streymi á netinu, skemmtun fyrir yngri kynslóðirnar á Garðskaga, dorgveiði barna við Sandgerðishöfn, viðburðir í leik-og grunnskólum, pubquiz, listasýningar, opin söfn og matarvagnar, ásamt fleiri viðburðum. Íbúar voru hvattir til að gleðjast heima með sínum nánustu og lífga upp á tilveruna með því að skreyta með bleikum og fjólubláum litum. 

Það er ánægjulegt að það tókst að halda litla bæjarhátíð þrátt fyrir aðstæður, íbúarnir tóku virkan þátt í einstökum viðburðum og segja má að tekist hafi að lífga upp á tilveruna hjá íbúum Suðurnesjabæjar eftir allar þær hömlur sem verið hafa varðandi hátíðahöld undanfarna mánuði og misseri. 

Suðurnesjabær þakkar undirbúningsnefndinni fyrir frábært starf, þar sem hugmyndaauðgi og lausnamiðuð nálgun var ráðandi. Einnig er öllum þeim sem lögðu sitt af mörkum við framkvæmd viðburða og komu á einhvern hátt að bæjarhátíðinni fyrir þeirra framlag. Þá þökkum við þeim styrktaraðilum sem buðu meðal annars upp á beint streymi óskalagatónleikanna á laugardagskvöldið.

Við erum reynslunni ríkari nú að lokinni „Litlu bæjarhátíðinni í Suðurnesjabæ“. Íbúar eru hvattir til þess að huga að næstu bæjarhátíð, safna að sér bleiku og fjólubláu skrauti og koma þannig tvíefld til leiks eftir góða upphitun í ár. Við vonumst til að aðstæður bjóði upp á að við getum haldið veglega bæjarhátíð á næsta ári.

Meðfylgjandi myndir voru teknar á hinum ýmsu viðburðum Litlu bæjarhátíðarinnar í Suðurnesjabæ 2021.