Leiksvæði í Suðurnesjabæ
Í Suðurnesjabæ er nokkur fjöldi leiksvæða bæði á opnum svæðum og á skóla- og leikskólalóðum. Leiksvæði og skólalóðir eru bæði viðhaldsfrek og kostnaðarsöm í rekstri og á undanförnum árum hefur ástand þeirra hrakað nokkuð. Á þessum svæðum eru leiktæki með fallvarnarundirlagi ásamt leiktækjum sem skv. lögum krefjast árlegrar öryggisúttektar. Í úttektum er farið yfir öll öryggisatriði skv. ÍST EN 1176:2008 af óháðu skoðunarfyrirtæki. Í síðustu úttektum hafa komið fram ábendingar sem nauðsynlegt hefur verið að bregðast við með ábyrgum hætti.
Við fjárhagsáætlunargerð Suðurnesjabæjar fyrir árið 2024 var gerð og lögð fram fjögurra ára viðhaldsáætlun leiksvæða Suðurnesjabæjar sem samþykkt var af bæjarstjórn á fundi þann 1. nóvember 2023. Í þeirri áætlun kom fram að skv. úttektum væri nauðsynlegt að fjarlægja ákveðin leiktæki vegna slysahættu ásamt endurnýjun og endurbótum á öðrum. Í framhaldinu var samþykkt metnaðarfull áætlun um endurnýjun og lagfæringar á leiksvæðum sveitarfélagsins á árinu 2024.
Vinna við lagfæringar á leiksvæðunum er hafin og er nú þegar búið að endurnýja ákveðin leiktæki og leiksvæði og endurnýjuð verða fleiri leiktæki á bæði leik- og skólalóðum í sumar. Lagt er upp með að leiksvæði sveitarfélagsins séu umfram allt örugg og án slysahættu.
Afar mikilvægt var að leggja af ákveðin leiksvæði strax vegna ástands bæði leiktækjanna og undirlags þeirra vegna slysahættu. Þau svæði verða ekki byggð upp aftur á þessu ári en ekki hefur verið tekin endanleg ákvörðun um framtíð þeirra.
Inn á betri Suðurnesjabær er nú kominn inn liður þar sem íbúar eru hvattir til að koma með ábendingar varðandi leiksvæðamál Suðurnesjabæjar.