Lækkun leikskólagjalda með skráningardögum
Bæjarráð Suðurnesjabæjar hefur samþykkt tillögu fræðsluráðs um að farið verði í tilraunarverkefni skólaárið 2024-2025 þar sem teknir verða upp bindandi skráningardagar fyrir forsjáraðila. Skráningardagarnir verða 11 á starfsárinu; vetrarfrí grunnskólanna í október (2 dagar), í kringum jól og áramót (4 dagar), vetrarfrí grunnskólanna í febrúar (2 dagar) og í dymbilviku í apríl (3 dagar). Þá skrá foreldrar börn sín sérstaklega ef þeir hyggjast nýta sér þjónustu leikskólans á skilgreindum skráningardögum.
Leikskólarnir verða opnir öllum þeim sem þurfa á þjónustu að halda en starfsemin er sniðin að fjölda barna. Með því er hægt að skipuleggja leikskólastarfið fyrir fram og gera starfsfólki kleift að nýta þá daga fyrir styttingu vinnuviku. Þeir forsjáraðilar sem ekki nýta þjónustuna þessa skilgreindu skráningardaga fá felld niður leikskólagjöld sem nemur þeim dögum sem fjarvera er.
Skráningar eru bindandi og þurfa að berast leikskólastjóra eigi síðar en 30. september 2024. Verður það í höndum leikskólastjóra að óska eftir upplýsingum vegna skráningardaganna í ágúst og september.