Fara í efni

Í góðum félagsskap fyrir eldri borgara

Í góðum félagsskap fyrir eldri borgara

Opið hús fyrir eldri borgara í tilefni af heilsuviku í Suðurnesjabæ var haldið í Samkomuhúsinu í Sandgerði þann 9. október sl. Um 100 manns mættu á viðburðinn sem stóð frá kl. 12:00-14:00.

Gestir fengu kynningu á því félagsstarfi og heilsueflingu sem eldri borgurum stendur til boða í sveitarfélaginu. Jafnframt var heilsufarsmæling á vegum HSS þar sem hægt var að fá mældan blóðþrýsting, blóðsykur og aðra heilsufarsþætti. Ásamt því var kynnt sú starfsemi sem stendur íbúum og eldri borgurum til boða hjá HSS.

Dagskráin hófst með léttum veitingum og tónlist þar sem söngkonan Berglind Ragnarsdóttir tók nokkur gömul og góð lög. Í kjölfarið voru kynningar á félagsstarfinu og heilsueflingu í Suðurnesjabæ ásamt kynningu frá HSS. Guðrún Ágústsdóttir, hópstjóri í Sorgarmiðstöðinni flutti fyrirlestur undir yfirskriftinni „Veistu ef þú vin átt…” sem vakti mikla athygli og áhuga gesta, þar fjallaði hún um félagslega einangrun, maka missir á efri árum og sorgina.

Þátttakendur lýstu ánægju sinni með dagskrána og þá hlýju stemningu sem ríkti í samkomuhúsinu. Það má með sanni segja að þessi viðburður hafi fest sig í sessi sem kærkominn hluti af heilsuviku Suðurnesjabæjar og verði hér eftir árlegur viðburður sem eldri borgarar hlakka til að sækja.