Fara í efni

Hertar sóttvarnaraðgerðir og breytt starfsemi frá miðnætti 12. nóvember

Hertar sóttvarnaraðgerðir og breytt starfsemi frá miðnætti 12. nóvember

Aðgerðastjórn Suðurnesjabæjar kom saman til fundar í dag, 12. nóvember í ljósi hertra sóttvarnaraðgerða vegna Covid 19 sem taka gildi á miðnætti og gilda til og með 8. desember.

Eftirfarandi ráðstafanir snerta starfsemi Suðurnesjabæjar:

Almennt

  • Almennar fjöldatakmarkanir miðast við hámark 50 manns, hvort sem er utandyra, í opinberum rýmum eða einkarýmum. Börn fædd 2016 og síðar teljast ekki með.
  • Almennt gildir 1 metra fjarlægðarmörk milli einstaklinga, ef ekki er hægt að virða það gildir grímuskylda. Leikskólabörn og nemendur í 1. – 4. bekkjum grunnskóla eru undanþegin þessari reglu.
  • Grímuskylda er almenn, ef ekki er hægt að virða 1 metra fjarlægðarreglu.
  • Heimilt er að halda skólaskemmtanir fyrir allt að 500 manns í hverju sóttvarnahólfi.  Skylda er  um neikvæða niðurstöðu hraðprófs vegna skólaskemmtana í grunnskólum en undanþága er frá 1 metra reglu og grímuskyldu. Varðandi aðra fjölmenna viðburði, svo sem tónleika eða skemmtanir, er heimilt að halda slíka viðburði fyrir 500 manns í hverju sóttvarnahólfi ef allir gestir fæddir 2015 og fyrr framvísa neikvæðri niðurstöðu úr hraðprófi sem má ekki vera eldra en 48 klst.  Ef ekki er hægt að uppfylla 1 metra reglu skulu gestir bera grímu, að undanskildum börnum fæddum 2006 eða síðar.  Heimilt er að víkja frá 1 metra reglunni þegar gestir sitja en þá ber að nota grímu.  Skylt er að skrá gesti í föstum sætum með nafni, kennitölu og símanúmeri.  Óheimilt er að selja veitingar í hléi. 
  • Íþróttamiðstöðvar mega taka á móti 75% af leyfilegum hámarksfjölda gesta samkvæmt starfsleyfi. Börn fædd 2016 eða síðar teljast ekki með.

 Skólastarf

  • Almenn regla um 50 manna fjöldatakmörk gilda í skólum, nema að börn fædd 2016 og síðar eru undanskilin. Börn fædd 2006 og síðar eru undanþegin grímuskyldu.
  • Starfsfólki í leikskólum er ekki skylt að nota grímu í samskiptum við leikskólabörn.
  • Kennurum í grunnskólum er heimilt að taka niður grímu eftir að sest er niður inni í skólastofum.
  • Blöndun milli hópa í skólastarfi er heimil á öllum skólastigum.

Stofnanir Suðurnesjabæjar, svo sem íþróttamiðstöðvar munu auglýsa þær ráðstafanir sem gilda í þeim stofnunum. Sjá m.a. facebook síður Íþróttamiðstöðinnar í GarðiÍþróttamiðstöðarinnar í Sandgerði og Bókasafn Suðurnesjabæjar.

Þá mun Suðurnesjabær endurskoða þau áform sem uppi eru um viðburði á vegum sveitarfélagsins á næstu vikum. Upplýsingum um það verður komið á framfæri eftir því sem við á.

Aðgerðastjórn leggur ríka áherslu á að allir sinni persónulegum smitvörnum og að farið sé eftir þeim leiðbeiningum og sóttvarnareglum sem eru í gildi hverju sinni.