Heilsugæsluþjónusta í Suðurnesjabæ
Bæjaryfirvöld í Suðurnesjabæ hafa mörg undanfarin ár unnið að því að íbúar sveitarfélagsins fái notið heilsugæsluþjónustu í heimabyggð. Í góðu samstarfi Suðurnesjabæjar við heilbrigðisráðherra og forstjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja hefur nú verið gengið frá viljayfirlýsingu þessara aðila um að heilsugæslustöð verði opnuð í Suðurnesjabæ.
Í dag undirrituðu heilbrigðisráðherra, forstjóri HSS og bæjarstjóri Suðurnesjabæjar viljayfirlýsinguna, samkvæmt henni er unnið að því að starfsemi heilsugæslunnar hefjist fyrir maí 2025. Heilsugæslan verður staðsett í húsnæði Suðurnesjabæjar í Vörðunni, Miðnestorgi 3 í Sandgerði.
Markmið með viðbótarstarfsstöð HSS í Suðurnesjabæ er að bæta aðgengi að heilsugæsluþjónustu í sveitarfélaginu, færa hana nær íbúum og styrkja um leið þjónustu við íbúana. Boðið verður upp á almenna heilsugæsluþjónustu á ákveðnum tímum. Þetta fyrirkomulag fellur vel að áherslum stjórnvalda um jafnt aðgengi óháð búsetu og því verkefni að efla heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað notenda innan heilbrigðiskerfisins.
Suðurnesjabær fagnar þessum mikilvæga áfanga, sem er liður í því að efla innviði í sveitarfélaginu og auka þjónustu við íbúana. Suðurnesjabær er ört vaxandi sveitarfélag og er íbúafjöldi sveitarfélagsins nú tæplega 4.200 og hefur fjölgað um 5% á einu ári.