Fara í efni

Góð niðurstaða ytra mats

Góð niðurstaða ytra mats

Á hverju ári vinnur Menntamálastofnun ytra mat á 6 leikskólum og 10  grunnskólum  á landinu  fyrir hönd mennta- og menningarmálaráðuneytis. Í ytra mati felst að matsaðilar Menntamálastofnunar leggja mat á starfsemi viðkomandi skóla með hliðsjón af gildandi viðmiðum sem meðal annars byggja á lögum, reglugerðum og aðalnámskrám. Er það  gert með skoðun á fyrirliggjandi gögnum um starfsemi skólans, vettvangsheimsóknum matsaðila og viðtölum við nemendur, starfsfólk skóla og foreldra. Á þessu skólaári voru tveir grunnskólar og einn leikskóli í Suðurnesjabæ í slíku ytra mati.

Menntamálastofnun hefur nýlega sent frá sér skýrslur varðandi þessa þrjá skóla. Skólarnir sem um ræðir eru Gefnarborg, Gerðaskóli og Sandgerðisskóli. Niðurstaða matsins sýnir að af þeim þáttum sem kannaðir voru fengu skólarnir mjög góða niðurstöðu. Slíkt mat er mjög gott fyrir skólastafið og sýnir gæðastarf í skólunum og einnig hvar tækifæri liggja til skólaþróunar. Helstu þættir sem metnir eru í leikskólum eru: Stjórnun, Uppeldis og menntastarf, Foreldrasamvinna og ytri tengsl, Skóli án aðgreiningar og Innra mat. Í grunnskólum eru eftirfarandi þættir metnir: Stjórnun og fagleg forysta, Nám og kennsla, Innra mat og í Gerðaskóla var einnig metinn þátturinn Nám án aðgreiningar. Þennan góða árangur skólanna í Suðurnesjabæ má þakka öflugu starfsfólki, kennurum og öðrum sem starfa við skólana ásamt nemendum og foreldrum. Það þurfa allir að vinna saman til að ná svo góðum faglegum árangri.

Niðurstöðuskýrslur í heild sinni má sjá með því að smella á viðeigandi skóla.

 *Myndin sem fylgir fréttinni er tekin þegar nemendur Gerðaskóla og Sandgerðisskóla vígðu göngu- og hjólastíginn á milli byggðakjarnanna.