Fyrsta barna- og ungmennaþing Suðurnesjabæjar haldið með glæsibrag
Þriðjudaginn 13. maí fór fram fyrsta barna- og ungmennaþing Suðurnesjabæjar, en það var ungmennaráð bæjarins sem stóð að viðburðinum. Um 50 börn og ungmenni úr 7.–10. bekk úr grunnskólum Suðurnesjabæjar tóku þátt í þinginu, sem haldið var með það að markmiði að styrkja lýðræðislega þátttöku ungs fólks í sveitarfélaginu.
Á þinginu fengu þátttakendur tækifæri til að tjá skoðanir sínar og leggja fram hugmyndir um málefni sem varða daglegt líf þeirra og samfélag. Með því að skapa formlegan vettvang fyrir rödd barna og ungmenna vill Ungmennaráðið efla virka borgaravitund, samráðshæfni og trú þátttakenda á að skoðanir þeirra skipti máli.
Unnið var í sjö umræðuflokkum: lýðheilsa og andleg heilsa, umhverfi og samgöngur, íþróttir og tómstundir, netið og samfélagsmiðlar, skólinn, menning og viðburðir og samfélagið. Mikil og málefnaleg umræða átti sér stað innan hópanna og fjölmargar góðar tillögur komu fram.
Ungmennaráð Suðurnesjabæjar þakkar öllum þátttakendum innilega fyrir þeirra framlag. Niðurstöður þingsins verða teknar saman og kynntar nemendum grunnskólana, bæjaryfirvöldum og starfsfólki, með það að markmiði að þær nýtist við stefnumótun og ákvarðanatöku í málum sem snúa að börnum og ungmennum í Suðurnesjabæ.