Fræðsla fyrir foreldra/forsjáraðila
Föstudaginn sl. fengu nemendur í 7.-10. bekk í grunnskólum Suðurnesjabæjar fræðslu frá Andreu og Kára um mikilvægi sjálfsmyndar, samfélagsmiðla og samskipta kynjanna og fengu mikið lof fyrir góða áheyrn og líflegar umræður!
Nú er komið að foreldrum/forsjáraðilum að fá sömu fræðslu og hvetjum við alla foreldra/forsjáraðila að mæta í Samkomuhúsið í Sandgerði þriðjudaginn 8. október kl. 19:30. Það er mikilvægt að foreldrar fái innsýn í þau mál sem börn þeirra glíma við, sérstaklega þegar kemur að samfélagsmiðlum og samskiptum.
Það er lykilatriði að foreldrar/forsjáaðilar taki þátt í þessari umræðu, þar sem þeir geta gegnt stóru hlutverki í að styðja börn sín í þessum áskorunum.
Fræðslan, sem ber heitið FOKK ME – FOKK YOU, byggir á áralangri reynslu af starfi með unglingum. Hún fjallar um sjálfsmynd ungs fólks, hvernig hún mótast á tímum samfélagsmiðla og hvaða áhrif samskipti, bæði á netinu og í eigin persónu, hafa á þennan mótunarferil. Auk þess er lögð áhersla á virðingu í samskiptum, mörk og samþykki, og farið er yfir algengar birtingarmyndir neikvæðra samskipta, kynferðislegrar áreitni og stafræns ofbeldis.
Við biðjum foreldra/forsjáraðila um að fjölmenna á þessa mikilvægu fræðslu, því að með sameiginlegu átaki allra sem koma að börnum og ungmennum í Suðurnesjabæ getum við stuðlað að jákvæðum samskiptum og sterkari sjálfsmynd barna okkar!