Fara í efni

Fjölmörg verkefni úr Suðurnesjabæ fengu úthlutun úr Uppbyggingarsjóði Suðurnesja

Fjölmörg verkefni úr Suðurnesjabæ fengu úthlutun úr Uppbyggingarsjóði Suðurnesja

Uppbyggingarsjóður Suðurnesja úthlutaði styrkjum til 30 verkefna sl. föstudag, 10. desember, fyrir samtals 45 milljóna króna.
Auglýst var eftir styrkumsóknum í október sl. og bárust samtals 52 umsóknir upp á rúmlega 146 milljónir króna. Ánægjulegt er að sjá að stór hluti þeirra verkefna sem hlutu styrki að þessu sinni eru í Suðurnesjabæ og koma úr öllum þremur úthlutunarflokkum sjóðsins.

Flokkarnir þrír sem um er að ræða eru stofn og rekstur, menning og listir og atvinna og nýsköpun. Þá fékk menningarverkefnið Ferskir Vindar nú úthlutað þriðja árið í röð af þriggja ára samningi þess við sjóðinn eða  kr. 2.000.000. kr í ár.

Yfirlit yfir verkefni sem fengu úthlutun má finna á heimasíðu Heklunnar.

Verkefnin sem tengjast Suðurnesjabæ eru eftirfarandi en þess má geta að Suðurnesjabær er einnig þátttakandi í verkefninu Safnahelgi á Suðurnesjum.

Við óskum styrkhöfum til hamingju með úthlutina  og velfarnaðar í sínum verkefnum.

  • Verzlun Þorláks Benediktssonar Akurhúsum. Umsækjandi: Suðurnesjabær verkefnastjóri: Margrét I. Ásgeirsdóttir. Flokkur: Stofn og rekstur. Verkefnið lýtur að því að gera upp Verzlun Þorláks Benediktssonar, sem var í rekstri að Akurhúsum í Garði frá 1921-1972, og gera aðgengilega gestum að nýju. Að kynna íbúum og gestum verzlunar- og atvinnusögu í Garði og Sandgerði frá fyrri tíð. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 1.000.000.
  • Merking gamalla húsa í Garðinum.  Umsækjandi og verkefnastjóri: Ásgeir Magnús Hjálmarsson. Flokkur: Menning. Verkefnið snýst um að varðveita og skrásetja sögu gamalla húsa í sveitarfélaginu Garði í Suðurnesjabæ. Mikilvægt er að vernda þá sögu og kynna hana fyrir komandi kynslóðum og íbúum í sveitarfélaginu ásamt ferðamönnum sem heimsækja Garðinn. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr.800.000.
  • Jazzfjélag Suðurnesjabæjar – tónleikaröð. Umsækjandi og verkefnastjóri: Halldór Lárusson. Flokkur: Menning.  Verkefnið snýst um að efla menningarlíf í Suðurnesjabæ og á Suðurnesjum. Styðja við og styrkja íslenskt tónlistarlíf og tónlistarmenntun á Suðurnesjum. Skapa vettvang fyrir ungt og upprennandi tónlistarfólk til að koma fram sem og reyndara tónlistarfólk.Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 800.000.
  • Safnahelgi á Suðurnesjum. Umsækjandi: Grindavíkurbær. Verkefnastjóri: Eggert Sólberg Jónsson. Flokkur: Menning. Markmiðið er fyrst og fremst að vekja athygli landsmanna á metnaðarfullu safna- og menningarstarfi á Suðurnesjum með því að bjóða ókeypis aðgang að helstu söfnum og setrum á svæðinu. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 3.000.000 í þrjú ár. Samtals kr. 9.000.000.
  • Sálmaskáldið sr. Hallgrímur Pétursson. Umsækjandi: Margrét Tómasdóttir. Verkefnastjóri: Dr. Daníel Ólason. Flokkur: Menning. Verkefnið snýst um að koma upp sýningu á Hvalsnesi sem kynni og segi merka sögu sr. Hallgríms Péturssonar sálmaskálds og Guðríðar Símonardóttur (Tyrkja -Guddu) eiginkonu hans. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr.1.300.000.
  • Tónleikaröð í Hvalsneskirkju. Umsækjand og verkefnastjóri: Magnea Tómasdóttir. Flokkur: Menning. Tónleikaröðin, Tónar í Hvalneskirkju, eru tónleikar þar sem fremstu listamenn klassískrar tónlistar koma fram. Haldnir verða fimm tónleikar. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 800.000.
  • Vöruþróun og markaðssetning Litla brugghússins. Umsækjandi: Litla brugghúsið. Verkefnastjóri: Guðjónína Sæmundsdóttir. Flokkur: Atvinnu- og  nýsköpun. Verkefnið snýr að því  að þróa vörulínu fyrirtækisins og gera hana heildstæða, þróa nýjar vörur, gjafapakningar og vörur tengdar brugghúsinu. Einnig markaðssetningaráætlun og markaðssetja vörur brugghússins. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr. 1.250.000.
  • Mermaid – Geothermal Seaweed Spa. Umsækjandi: Mermaid ehf. Vekefnastjóri: Bogi Jónsson. Flokkur: Atvinnu- og nýsköpun. Verkefnið lýtur að þróun á vandaðri lúxus heilsulind við sjávarsíðuna þar sem boðið verður upp á sérhæfð böð og heilsumeðferðir. Lokamarkmiðið er bygging og rekstur lúxus heilsulindar og veitingahúss. Verkefnið hlýtur styrk að fjárhæð kr.5.000.000.