Fjárhagsáætlun Suðurnesjabæjar 2026-2029
Fjárhagsáætlun Suðurnesjabæjar fyrir árið 2026, ásamt þriggja ára áætlun fyrir árin 2027-2029 var samþykkt á fundi bæjarstjórnar þann 10. desember. Hér að neðan er samantekt um áætlun ársins 2026.
Umfjöllun um forsendur fjárhagsáætlunar hófst á fyrsta ársfjórðungi ársins og hefur bæjarráð fjallað um áætlunargerðina, forsendur og endanlega tillögu um fjárhagsáætlun á undanförnum mánuðum og þá hefur bæjarstjórn haft vinnufundi með starfsfólki sveitarfélagsins til yfirferðar yfir starfsáætlanir og ýmsa liði fjárhagsáætlunar.
Fjárhagsáætlun næsta árs lítur vel út, samanlagðar tekjur samstæðu A og B hluta eru áætlaðar 7,8 milljarðar króna. Útsvarsprósentan verður óbreytt, 14,97%, en fasteignaskattur á íbúðarhúsnæði lækkar úr 0,28% í 0,23%, m.a. til að koma til móts við eigendur íbúðarhúsnæðis vegna mikilla hækkana á fasteignamati. Þá er álagningarstuðull vatnsgjalds vegna íbúðahúsnæðis hjá vatnsveitu í þéttbýlinu í Sandgerði lækkað úr 0,13% í 0,11%.
Rekstarniðurstaðan er jákvæð um 326 milljónir króna í A hluta og í samstæðunni allri (A+B) er rekstrarniðurstaðan sömuleiðis jákvæð um 406 milljónir króna.
Áfram verður haldið við að greiða niður skuldir og standa þannig vörð um sterka fjárhagsstöðu sveitarfélagsins. Fjármálamarkmið nást að fullu, sem endurspeglar góða stjórn og trausta stefnumótun.
Heildar fjárfestingar eru áætlaðar samtals 973 milljónir, ef tekið er tillit til gatnagerðargjalda og annarra tengigjalda er fjárfestingaáætlun nettó 753 milljónir á komandi ári. Þá verður sérstök áhersla lögð á viðhaldsverkefni til að halda áfram að byggja upp og viðhalda eignum og innviðum sveitarfélagsins.
Samanlagt sýnir áætlunin metnaðarfulla og ábyrga framtíðarsýn þar sem þjónusta, uppbygging og traust fjármálastjórnun haldast í hendur.
Tekjustofnar
Veigamestu tekjustofnar sveitarfélaga eru útsvar, fasteignagjöld og framlög frá Jöfnunarsjóði.
Tekjur Suðurnesjabæjar eru áætlaðar árið 2026 um 7,5 milljarðar króna í A hluta bæjarsjóðs en tekjur samstæðu A+B hluta eru áætlaðar 7,8 milljarðar. Áætlaðar tekjur samstæðu A og B hluta skiptast þanni að tekjur af útsvari og fasteignaskatti eru áætlaðar 4,9 millljarðar, framlög frá Jöfnunarsjóði eru áætluð 1,3 milljarðar og aðrar tekjur 1,5 milljarðar
Framlög frá Jöfnunarsjóði munu lækka töluvert á árinu 2026 og er það afleiðing af nýjum lögum um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga sem munu taka gildi 1. janúar 2026. Megin breytingin er sú að í nýjum lögum er þremur aðskildum framlögum samkvæmt eldri lögum steypt saman í eitt jöfnunarframlag. Þessi breyting er mjög óhagstæð fyrir Suðurnesjabæ, sem kemur fram á árinu 2026 og einnig á árinu 2027. Þessi breyting á lögunum mun hins vegar ekki hafa áhrif á önnur framlög, svo sem vegna reksturs grunnskóla og málefna fatlaðra. Samkvæmt áætlun sjóðsins verða framlög Jöfnunarsjóðs á árinu 2026 1.333 milljónir króna, en samkvæmt úkomuspá ársins 2025 eru þessi framlög áætluð 1.411 milljónir. Þessi framlög eru hluti af heildar tekjum A hluta bæjarsjóðs.
Fasteignaskattur er þriðji stærsti tekjustofn sveitarfélagsins og er lagður árlega á fasteignir í sveitarfélaginu sem metnar eru eftir fasteignamati samkvæmt fasteignaskrá sem gefið er út árlega af Húsnæðis-og mannvirkjastofnun. Þar sem fasteignamat íbúðarhúsnæðis hækkar töluvert frá árinu 2025 ákvað bæjarstjórn að lækka álagningarhlutfall fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði úr 0,28% af fasteignamati niður í 0,23%. Er það til að koma til mótvægis gegn hækkun fasteignamats.
Útgjöld
Rekstrargjöld ársins 2026 eru áætluð í A hluta 6,7 milljarðar króna. Þar er rúmlega helmingur laun og launatengd gjöld, breyting á lífeyrisskuldbindingum 125 milljónir króna og annar rekstrarkostnaður er 2,4 milljarðar króna. Í A+B hluta eru rekstrargjöldin áætluð 6,8 milljarður króna. Þar af er breyting á lífeyrisskuldbindingum 136 milljónir króna og annar rekstrarkostnaður 2,4 milljarður króna. Annar rekstrarkostnaður felur í sér öll önnur útgjöld en launagreiðslur til að reka sveitarfélagið.
Frístundastyrkur fyrir börn og unglinga, 0-18 ára hækkar úr 48.000 í 55.000 fyrir hvert barn. Heimgreiðslur til foreldra/forráðamanna barna frá 12 mánaða aldri fram að leikskóla eða vistunar hjá dagforeldri verða 104.000 á mánuði og niðurgreiðslur vegna vistunar barna hjá dagforeldrum hækkar í 92.000 á mánuði miðað við 8 tíma vistun. Þá verða ferðastyrkir vegna framhaldsmenntunar 32.000 fyrir nemanda á hverja námsönn.
Markmið í fjármálum
Í júní sl. samþykkti bæjarstjórn samhljóða helstu fjárhagsleg markmið, sem eru leiðarljós við vinnslu fjárhagsáætlunar. Markmiðin snúa að rekstrarlegum þáttum. Hér verður gert grein fyrir nokkrum þeirra sem helst er litið til varðandi A hluta bæjarsjóðs:
Rekstrarniðurstaða verði jákvæð um að lágmarki 1% af tekjum. Í fjárhagsáætluninni er rekstrarniðurstaða jákvæð um 4,4%.
Veltufé frá rekstri verði yfir 10% af tekjum til að standa undir afborgunum lána og sem mestu af fjárfestingum. Samkvæmt áætluninni er veltufé frá rekstri A hluta áætlað 10,8%.
Markmið um að lántökur nemi að hámarki 40% af fjárfestingum. Gert er ráð fyrir að þetta hlutfall miðað við nettó fjárfestingaáætlun sé um 26%.
Markmið varðandi skuldastöðu A hluta er að skuldastaða fari ekki yfir 80% af tekjum, niðurstaða áætlunarinnar er að skuldahlutfall verði 71,1% í árslok 2026.
Leiðarljós varðandi handbært fé er að það verði að lágmarki 500 milljónir í árslok 2026, niðurstaða áætlunarinnar er að handbært fé A hluta er áætlað í árslok 2026 799 milljónir.
Loks er megin markmið varðandi samstæðu A og B hluta að sveitarfélagið standist viðmið fjármálaregla sveitarstjórnarlaga um jafnvægisreglu og skuldareglu og er niðurstaðan að Suðurnesjabær uppfylli þær kröfur samkvæmt áætlun 2026 og næstu þriggja ára.
Ýmsar kennitölur
Áætlað er að rekstrarniðurstaða A hluta bæjarsjóðs verði jákvæð um 325 milljónir á árinu 2026. Rekstrarniðurstaða samstæðu A og B hluta er áætluð jákvæð um 406 milljónir.
Framlegð frá rekstri A hluta, fyrir afskriftir og fjármagnsliði er áætluð 733 milljónir, eða 9,8%. Framlegð frá rekstri samstæðu A og B hluta er áætluð 958 milljónir, eða 12,3%.
Veltufé frá rekstri A hluta bæjarsjóðs er áætlað að verði 807 milljónir, eða 10,8% af tekjum og hjá samstæðu A og B hluta 995 milljónir, eða 12,8%.
Skuldir og skuldbindingar A hluta bæjarsjóðs eru áætlaðar 5.312 milljónir í árslok 2026, þar af langtímalán 2.845 milljónir auk lífeyrisskuldbindinga og annarra skuldbindinga. Skuldir og skuldbindingar samstæðu A og B hluta eru áætlaðar að verði 6.552 milljónir. Skuldaviðmið samstæðu A og B hluta er áætlað að verði 55,7% í árslok, en samkvæmt fjármálareglum má þetta viðmið ekki fara yfir 150% og verður því að segjast að skuldastaða sveitarfélagsins er mjög vel viðunandi.
Ef horft er til þeirra fjárhagslegu markmiða sem bæjarstjórn samþykkti og þau borin saman við niðurstöður fjárhagsáætlunar, þá er ljóst að öllum markmiðum hefur verið náð.
Framkvæmdir og fjárfestingar
Fjárfestingaáætlun fyrir A-hluta árið 2026 hljóðar upp á um 903 milljónir og í samstæðu A og B hluta um 991 milljónir.
Helstu framkvæmdir á næsta ári eru áframhaldandi gatnagerð og uppbygging innviða í nýjum íbúðahverfum, samgöngu og umferðarmál. Einnig framkvæmdir í skólum og leikskólum, íþróttamannvirkjum og opnum svæðum. Í B hluta eru áætlaðar fjárfestingar í vatnsveitu og fráveitu, ásamt endurbyggingu grjótvarnargarðs Sandgerðishafnar og svona mætti lengi telja.
Viðhaldsverkefni
Áætlað er að kostnaður vegna viðhaldsverkefna árið 2026 verði tæplega 150 milljónir króna. Helstu viðhaldsverkefni tengjast grunnskólunum Sandgerðisskóla og Gerðaskóla, íþróttamiðstöðvunum í Garði og Sandgerði, ásamt öðrum helstu fasteignum sveitarfélagsins. Þá verður eins og fyrr áhersla á viðhald gatna, umferðarmerkingar og götulýsingar. Einnig eru árleg viðhaldsverkefni hjá B hluta fyrirtækjum, svo sem vatnsveitu, fráveitu og Sandgerðishöfn.
Hér er hægt að skoða fjárhagsáætlunina í heild sinni.
Hér er hægt að skoða gjaldskrána sem tekur gildi 1.jan næstkomandi.
Vinnsla fjárhagsáætlunar er eitt helsta viðfangsefni kjörinna fulltrúa og starfsfólks sveitarfélagsins á hverju ári. Allir vinna að því sameiginlega verkefni að ná settum markmiðum, tryggja sem besta þjónustu við íbúana og vinna að ábyrgð varðandi umsýslu fjármuna sveitarfélagsins. Það er ánægjulegt að öll fjárhagsleg markmið bæjarstjórnar hafa verið uppfyllt. Sú fjárhagsáætlun sem bæjarstjórn hefur samþykkt ber með sér góða rekstrarafkomu og sterka efnahagslega stöðu, ásamt því að Suðurnesjabær stenst að fullu fjármálareglur sveitarstjórnarlaga. Stjórnendur og starfsmenn sveitarfélagsins hafa lagt af mörkum mikla vinnu og gott framlag við vinnslu fjárhagsáætlunar og eiga þau hrós og þakkir skildar fyrir þeirra mikilvæga framlag. Það er lykillinn að góðri niðurstöðu og nú tekur við það verkefni að vinna eftir fjárhagsáætlun af fullri ábyrgð og leitast við að láta áætlunina standast þegar upp verður staðið í árslok 2026.
Ég þakka starfsfólki og kjörnum fulltrúum í bæjarstjórn fyrir gott samstarf og vel unnin störf.
Magnús Stefánsson bæjarstjóri