Fara í efni

Fab Lab smiðja Suðurnesja

Fab Lab smiðja Suðurnesja

Þann 14. júní var undirrituð samstarfsyfirlýsing um samstarf til að tryggja rekstur Fab Lab smiðju Suðurnesja.  Að samstarfsyfirlýsingunn standa háskóla-, iðnaðar-og nýsköpunarráðuneytið, mennta-og barnamálaráðuneytið, Fjölbrautaskóli Suðurnesja, MSS, Keilir, Fisktækniskóli Íslands, Þekkingarsetur Suðurnesja, sveitarfélögin á Suðurnesjum og Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum.  Fab Lab smiðjan verður til húsa í Fjölbrautaskóla Suðurnesja og ber skólinn fjárhags-og verklega ábyrgð á starfseminni.

Þetta samstarf er sérlega ánægjulegt og eru miklar væntingar bornar til þess að í smiðjunni munu fæðast áhugaverð nýsköpunarverkefni.  Markmiðin eru m.a. að auka þekkingu og leikni nemenda, kennara, almennings og innan atvinnulífsins á persónumiðaðri nýsköpunarvinnu og stafrænum framleiðsluaðferðum.  Starfseminni er einnig ætlað að styðja við þátttöku og áhuga á verk-og tækninámi í grunn-og framhaldsskólum, aukið tæknilæsi og aðgengi að skapandi vinnuumhverfi.  Þá er árherslan að veita fyrirtækjum og nærsamfélaginu þjónustu með þróun og prófun hugmynda á frumstigi með það að markmiði að efla nýsköpun og samkeppnishæfni.

Fjármögnun starfseminnar byggir m.a. á fjárframlögum ráðuneytanna og Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, sem vinnur að stofnun nýsköpunarvettvangs sem ætlað er að leiða saman einstaklinga, fyrirtæki, stofnanir og skóla með þekkingarneti, sem stuðli að aukinni samvinnu og miðlun upplýsinga m.a. varðandi Fab Lab smiðjur.

Auk undirritunar á samstarfsyfirlýsingunni, var undirritaður sérstakur samningur um framkvæmd verefnisins og aðilar að þeim samningi eru háskóla-,iðnaðar-og nýsköpunarráðuneytið, mennta-og barnamálaráðuneytið, Fjölbrautarskóli Suðurnesja, Reykjanesbær og Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum.

Stofnun Fab Lab smiðjunnar er m.a. afrakstur af samstarfi sveitarfélaganna á Suðurnesjum og ríkisins undanfarin ár og er full ástæða til þess að þakka öllum þeim aðilum sem að þessu verkefni hafa komið og um leið að lýsa von til þess að Fab Lab smiðja Suðurnesja fæði af sér áhugaverð nýsköpunarverkefni sem styðja við atvinnulíf og samfélagið á Suðurnesjum.