Fara í efni

Dagdvöl aldraðra hefur starfsemi í Suðurnesjabæ

Dagdvöl aldraðra hefur starfsemi í Suðurnesjabæ

Dagdvöl aldraðra hefur formlega verið opnuð í Suðurnesjabæ í húsnæði gamla Garðvangs í Garðinum. Húsnæðið hefur verið tekið á leigu, í góðu samstarfi við eigendur þess. Það eru Suðurnesjabær og Sveitafélagið Vogar sem í sameiningu sjá um rekstur dagdvalarinnar ásamt því að Sjúkratryggingar Íslands greiða daggjöld. Húsnæðið hefur verið endurbætt, aðstaðan er til fyrirmyndar og er hin glæsilegasta. Margir þekkja til Garðvangs og bera húsnæðinu vel söguna og því er mikil tilhlökkun að fá líf í húsið á ný. Tinna Torfadóttir hjúkrunarfræðingur veitir starfseminni forstöðu.

Markmið dagdvalarinnar er að stuðla að áframhaldandi sjálfstæðri búsetu aldraðra heima með því að veita þann stuðning sem þarf til að viðhalda færni og getu. Eins er það markmið dagdvalarinnar að rjúfa félagslega einangrun aldraðra.

Dagdvölin er opin fimm daga vikunnar og geta einstaklingar ráðið sjálfir hversu mikið þeir nýta sér þjónustuna, þ.e. allt frá einum degi upp í alla virka daga. Átta rými eru í dagdvölinni og gera má ráð fyrir að allt að fimmtán manns geti nýtt sér þjónustuna. Úrræðið býður upp á fjölbreytta þjónustu í formi félagslegs stuðnings, eftirlits með heilsufari, líkamsþjálfunar og annarrar afþreyingar. Morgunmatur, hádegismatur og síðdegishressing eru í boði og einnig er boðið upp á akstur í dagdvölina og aftur heim.  

Síðastliðin föstudag var bæjarfulltrúum, fulltrúum öldungaráðs og starfsfólki boðið að skoða aðstöðu dagdvalarinnar. Það er gleðiefni að nú sé komin heilbrigðisþjónusta í sveitarfélagið á ný, sem er vonandi fyrsta skrefið af fleirum í komandi framtíð.

Starfseminni hafa borist ýmsar gjafir og styrkir í þágu aldraðra sem munu njóta þjónustu hjá dagdvölinni. Rebekkustúkan Steinunn, Lionsklúbbur Sandgerðis, Lionsklúbburinn Keilir í Vogum, Kvefnfélagið Gefn í Garði og Við Sjóinn EHF í Vogum fá bestu þakkir fyrir hlýhug og framlög til starfseminnar.

Meðfylgjandi myndir voru teknar við tilefnið: