Byggðasafnið á Garðskaga 30 ára og Ásgeir Hjálmarsson heiðraður
Byggðasafnið á Garðskaga bauð til afmælisfagnaðar laugardaginn 29. nóvember 2025 í tilefni af 30 ára afmæli safnsins. Við það tækifæri var Ásgeir Hjálmarsson upphafsmaður og stofnandi Byggðasafnsins á Garðskaga heiðraður fyrir störf sín í þágu varðveislu og miðlunar menningar- og samfélagssögu úr Garði og Sandgerði í Suðurnesjabæ og frá Suðurnesjum.
Magnús Stefánsson bæjarstjóri færði Ásgeiri viðurkenningarskjöld frá Suðurnesjabæ fyrir störf hans. Ásgeir stofnaði eigið safn Braggann í Garði eftir að hann lauk störfum á byggðasafninu 2012 og hefur síðan tekið virkan þátt í menningarstarfi í Suðurnesjabæ og m.a. þá hittist hópurinn ,,Merkir menn“ hjá honum vikulega, en þeir hafa tekið það verkefni að sér að setja upp merkingar við gömul hús í Garði og Sandgerði.
Margrét I. Ásgeirsdóttir forstöðukona byggðasafnsins fór yfir sögu safnsins frá 1992, þegar fyrst var komið að máli við Ásgeir um stofnun byggðasafns í Garði. Þá var strax litið til húsnæði á Garðskaga , fjóss og hlöðu. Þar hefur safnið verið síðan en það varð formlega safn þegar Gerðahreppur tók við því til rekstrar 26. nóvember 1995. Margrét þakkaði Ásgeiri fyrir hversu mjög hann hefur verið forstöðumönnum og starfsfólki byggðasafnsins innan handar og til aðstoðar síðan hann lét af störfum. Hann hefur stutt við byggðasafnið alveg fram á þennan dag með upplýsingum, hvatningu og ráðleggingum.
Sigurbjörg Hjálmarsdóttir söngkona og Haukur Arnórsson píanóleikari fluttu gestum ljúfa jólatónlist.
Giljagaur og Skyrgámur voru nýkomnir niður úr fjöllunum og komu við á Garðskaga á byggðasafninu til að hitta káta krakka, syngja og spjalla við þau.