Fara í efni

Byggðasafnið á Garðskaga 25 ára

Byggðasafnið á Garðskaga 25 ára

Þann 26. nóvember 1995 var Byggðasafnið á Garðskaga formlega opnað. Aðdragandinn hafði verið nokkur en eins og margir vita er safnið hugarfóstur Ásgeirs Hjálmarssonar og að langstærstum hluta sett upp af honum. Ásgeir er safnari og hagur mjög og var búinn að safna miklu af hlutum í braggana sína við Skagabrautina þegar hann var beðinn um að halda sýningu í tilefni 120 ára afmælis Gerðaskóla árið 1992, sem hann og gerði með myndarbrag. Upp úr því fór boltinn að rúlla en Ásgeir hafði gengið með það í maganum að stofna formlegt safn um nokkurt skeið. Gömlu útihúsin á Garðskaga þóttu rökréttur kostur fyrir safnið enda höfðu þau ekki neinu hlutverki að gegna lengur á þeim tíma. Vita- og hafnarmálastofnun lánaði húsin undir starfsemina endurgjaldslaust í tíu ár en áður en sá tími leið hafði sveitarfélagið eignast húsin ásamt gamla vitavarðarhúsinu. Fyrstu árin var safnið aðallega opið um helgar en Ásgeir vann að áframhaldandi þróun þess í sjálfboðavinnu allar götur þar til nýja byggingin var tekin í notkun árið 2005 þegar hann var ráðinn safnstjóri. Safnið stækkaði verulega og var eftir það formlega opið flesta daga frá apríl mánuði til október. Þegar Ásgeir lét formlega af starfi safnstjóra árið 2012 var búið að fylla nýja húsið munum og safnið orðið hið glæsilegasta. Á byggðasafninu kennir ýmissa grasa og hefur að geyma auk hefðbundinna safngripa ýmsa muni sem segja sögu byggða- og búsetuhátta auk gripa um sjósókn og sjávarhætti. Þá hýsir safnið vélasafn Guðna Ingimundarsonar eins af heiðursíbúum þáverandi Sveitarfélagsins Garðs og nú Suðurnesjabæjar en Guðni var einnig síðasti vitavörðurinn á Garðskaga.

Í dag er safnið, að jafnaði, opið allt árið um kring en þar er nú einnig rekinn veitingastaður og settar hafa verið upp sýningar í Garðskagavita sem gestir safnsins geta skoðað.
 Athygli er vakin á því að nú er styttri opnunartími meðan glímt er við Covid-19 en opið er daglega frá kl. 17.00-20.00.

Miðað við núverandi aðstæður er ekki hægt að fagna þessum skemmtilega tilefni en verður það gert við fyrsta mögulega tækifæri.

Við óskum íbúum Suðurnesjabæjar til hamingju með 25 ára afmæli byggðasafnsins