Breytingar á leiðakerfi landsbyggðavagna 1. janúar 2026
Núverandi leiðakerfi landsbyggðavagna er 13 ára gamalt og hefur ekki verið uppfært í takti við uppbyggingu þéttbýliskjarna síðustu ára, sem og þær breytingar sem hafa orðið á íbúa- og byggðamynstri.
Nýja leiðakerfið sem tekur gildi um áramótin byggir á núverandi kerfi. Markmiðið með breytingunum er að þróa heildarmynd leiðakerfisins á landsbyggðinni, að þjónusta við vinnu- og skólasóknarsvæða verði sem best og að þjónusta á milli landshluta sé samræmd.
Vegagerðin á og rekur landsbyggðarvagna en Strætó sér um upplýsingagjöf og þjónustu fyrir farþega.
Helstu breytingar á Suðurnesjum:
Akstursleiðir 87 og 89 fá aukið vægi í að sinna atvinnu- og skólasókn innan Suðurnesja. Leið 89 mun aka í völdum ferðum að Keflavíkurflugvelli, en fyrsta ferð á virkum dögum verður kl. 05:12 frá Garði og verður vagninn við Keflavíkurflugvöll kl. 05:30. Þá munu leiðir 89 og 87 aka að Fjölbrautaskóla Suðurnesja í öllum ferðum sem farnar eru til og frá Miðstöð Reykjanesbæ.
Skerpt er á hlutverki leiðar 55 sem tenging milli Suðurnesja og höfuðborgarsvæðisins, og er tímataflan samþætt við innanbæjarkerfi Reykjanesbæjar í Miðstöð. Sömuleiðis er góð tenging við höfuðborgarvagna í Firði Hafnarfirði, Ásgarði Garðabæ og á Miklubraut Reykjavík, en ferðatíðni höfuðborgarvagna er alla jafna á 10 mínútna fresti á annatíma.
Leið 89 Garður – Sandgerði – Miðstöð Reykjanesbær:
- Akstursleið snúið við; verður Garður-Sandgerði-KEF-Airport-Reykjanesbær
- Ekur í völdum ferðum upp að Keflavíkurflugvelli. Fyrsta ferð frá Garði verður kl. 5:12 og verður vagninn kl.5:30 við Keflavíkurflugvöll
- Ferðum á virkum dögum fækkað úr ellefu í átta ferðir á dag
- Breytt akstursleið í Suðurnesjabæ – Stoppað hjá Pósthúsinu í Garði og Garðvangi, stoppað hjá Vörðunni og Íþróttamiðstöðinni í Sandgerði
- Í ferðum til Reykjanesbæjar verður ávallt stoppað við FS á stoppistöðinni Holtaskóli sem fær nafnið Holtaskóli – FS og Miðstöð
Nánari upplýsingar um breytt leiðakerfi má finna á heimasíðu Strætó bs., www.straeto.is