Ársreikningur Suðurnesjabæjar 2024
Ársreikningur Suðurnesjabæjar fyrir árið 2024 var samþykktur samhljóða eftir síðari umræðu í bæjarstjórn þann 7.maí 2025. Niðurstöður ársreikningsins fela í sér mjög góða afkomu og mun jákvæðari en fjárhagsáætlun 2024 gerði ráð fyrir.
Rekstrarniðurstaða A-hluta bæjarsjóðs var jákvæð að fjárhæð 322 milljónir króna en í fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu að fjárhæð 69 milljónir. Rekstrarniðurstaða í samanteknum reikningi A-og B hluta var jákvæð að fjárhæð 376 milljónir króna en í fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu 67 milljónir króna.
Rekstrartekjur í A hluta bæjarsjóðs voru alls 6.744 milljónir og í samanteknum reikningi A-og B hluta 7.177 milljónir. Rekstrarniðurstaða fyrir afskriftir og fjármagnsliði í A hluta var 701 milljónir, eða 10,39% af rekstrartekjum og í samanteknum reikningi A-og B hluta 911 milljónir eða 12,69%.
Samkvæmt rekstrarniðurstöðu ársins uppfyllir Suðurnesjabær jafnvægisreglu sveitarstjórnarlaga, þar sem samantekin rekstrarniðurstaða þriggja ára er jákvæð.
Heildareignir í samanteknum reikningi A og B hluta eru 11.454 milljónir. Heildar skuldir og skuldbindingar eru kr. 6.560 milljónir. Lífeyrisskuldbinding A og B hluta í árslok 2024 var 1.466 milljónir króna. Langtímaskuldir A og B hluta við lánastofnanir eru 3.862 milljónir og næsta árs afborganir langtímalána verða 351 milljónir.
Skuldaviðmið skv. reglum um fjárhagsleg viðmið sveitarfélaga hjá A og B hluta var 62,32%, en var 65,38% í árslok 2023. Hjá A hluta var viðmiðið 44,91%. Samkvæmt 2.mgr. 64.gr. sveitarstjórnarlaga má þetta hlutfall ekki vera hærra en 150%.
Rekstur í samanteknum reikningsskilum A og B hluta skilaði 879 milljónum í veltufé frá rekstri, sem er um 12% af rekstrartekjum. Fjárfesting í varanlegum rekstrarfjármunum A og B hluta nam 975 milljónum. Á árinu 2024 voru tekin ný langtímalán að fjárhæð 425 milljónir króna. Handbært fé hækkaði um 170 milljónir frá fyrra ári og var handbært fé í árslok 2024 alls 718 milljónir.
Rekstur málaflokka í A hluta bæjarsjóðs var nánast samkvæmt fjárhagsáætlun ársins. Rekstrarniðurstaða Eignasjóðs og hlutdeild í sameiginlega reknum samstarfsverkefnum var mun jákvæðari en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun. Þá var rekstrarniðurstaða stofnana í B hluta nokkuð jákvæðari en áætlun gerði ráð fyrir.
Íbúafjöldi í Suðurnesjabæ í árslok 2024 var 4.091 samkvæmt skráningu hjá Hagstofu en var 3.897 í árslok 2023. Íbúum fjölgaði því um 194 á árinu 2024, eða um 5%.
Ljóst er því að rekstur Suðurnesjabæjar gekk vel árið 2024 og hvílir fjárhagur sveitarfélagsins á traustum stoðum.