Fara í efni

17. júní í Suðurnesjabæ

17. júní í Suðurnesjabæ

Dagskrá 17. júní hátíðar Suðurnesjabæjar hófst tímanlega í ár eða kl 11.30 með fánahyllingu við Gerðaskóla þar sem hátíðarhöld fóru fram. Fánaberar voru  fulltrúar frá kattspyrnufélögunum sveitarfélagsins, Reyni og Víði. Fjallkona var Amelía Björk Davíðsdóttir nýstúdent og flutti hún ljóðið „Ég bið að heilsa“ eftir Jónas Hallgrímsson. Magnús Stefánsson, bæjarstjóri, sá um að kynna dagskrá dagsins að loknu ávarpi fjallkonu og fánahyllingu tók við söngur frá nemendum úr Tónlistarskólanum í Sandgerði. Söngkonurnar Karma og Ragnheiður sungu sitt hvort lagið við mikinn fögnuð viðstaddra. Anton Guðmundsson, formaður bæjarráðs Suðurnesjabæjar, flutti hátíðarræðu. Eftir formleg hátíðarhöld tók Leikhópurinn Lotta við og skemmti bæjarbúum, jafnt stórum sem smáum og lauk formlegri dagskrá með æfingum með þeim Sollu stirðu og íþróttaálfinum úr Latabæ en þau slógu rækilega í gegn og fengu viðstadda til að hreyfa vöðva og liði.

9. bekkur Gerðaskóla sá um kaffisölu, sjoppu og andlitsmálningu. Hátíðin var vel sótt og var gaman að sjá hversu margir voru árrisulir á þjóðhátíðardaginn.  Söfn Suðurnesjabæjar voru vel sótt en bæði Byggðasafnið á Garðskaga og Þekkingarsetur Suðurnesja í Sandgerði buðu íbúum og gestum á sýningar sínar. Í tilefni dagsins var Alþingshátíðardúkurinn til sýnis á Byggðasafninu en  um er að ræða bláan dúk á hvítum grunni, ofinn bæði úr hör og silki í tilefni Alþingishátíðar á Þingvöllum árið 1930. Í dúkinn er ofin mynd af einum af fegurstu fossum landsins, Öxarárfossi, ásamt skjaldamerki Íslands. Áletrun yfir skjaldamerkinu er 930-1930 en undir er áletrunin „Minni Íslands“. Rósaverk er ofið í kring í forn-norrænum stíl.

Eigendur þessa dúks voru hjónin Ágústa Sumarliðadóttir og Hallmann Sigurðarson sem bjuggu í Lambhúsum í Garði. Þau keyptu dúkinn á Þingvöllum árið 1930.

Við þökkum gestum fyrir komuna og öllum þeim sem lögðu hönd á plóg við að gera hátíðina sem skemmtilegasta.

 

Hér má sjá myndir frá 17. júní í Suðurnesjabæ