Fara í efni

Bæjarstjórn

86. fundur 10. desember 2025 kl. 17:30 - 19:37 í Ráðhúsinu í Garði
Nefndarmenn
  • Einar Jón Pálsson forseti
  • Jónína Magnúsdóttir fyrsti varaforseti
  • Magnús Sigfús Magnússon aðalmaður
  • Oddný Kristrún Ásgeirsdóttir aðalmaður
  • Anton Kristinn Guðmundsson annar varaforseti
  • Laufey Erlendsdóttir aðalmaður
  • Sigursveinn Bjarni Jónsson aðalmaður
  • Önundur Björnsson aðalmaður
  • Magnús Stefánsson bæjarstjóri
  • Sunneva Ósk Þóroddsdóttir aðalmaður
Fundargerð ritaði: Árni Gísli Árnason sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Dagskrá

1.Fjárhagsáætlun 2026-2029

2505089

Fjárhagsáætlun 2026-2029, síðari umræða.
Tóku til máls: MS, AKG, MSM og EJP.

Bókun bæjarstjóra um fjárhagsáætlun:

Umfjöllun um forsendur fjárhagsáætlunar hófst á fyrsta ársfjórðungi ársins og hefur bæjarráð fjallað um áætlunargerðina, forsendur og endanlega tillögu um fjárhagsáætlun á undanförnum mánuðum og þá hefur bæjarstjórn haft tvo vinnufundi með starfsfólki sveitarfélagsins til yfirferðar yfir starfsáætlanir og ýmsa liði vegna fjárhagsáætlunar.

Margar forsendur liggja til grundvallar vinnslu fjárhagsáætlunar, svo sem hagspár, áætlanir um útsvarstekjur og framlög frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Staða og sýn um þróun atvinnumála og atvinnustigs ásamt spá um þróun íbúafjölda í sveitarfélaginu til næstu missera og ára eru einnig mikilvægar forsendur í áætlanagerðinni. Margir áhrifaþættir eru markaðir nokkurri óvissu og munu hafa áhrif á framvindu áætlana. Þar má m.a. nefna almenna efnahagsþróun, svo sem hvernig mun vaxtastig þróast í náinni framtíð og hvernig tekst til við að vinna bug á verðbólgu.

Á 82. fundi bæjarstjórnar þann 4. júní sl voru samþykkt samhljóða helstu markmið við vinnslu fjárhagsáætlunar.
A - hluti:
1. Rekstarniðurstaða verði jákvæð um að lágmarki 1% af tekjum
2. Veltufé frá rekstri verði yfir 10% af tekjum til að standa undir afborgunum lána og sem mestu af fjárfestingum.
3. Lántaka nemi að hámarki 40% af fjárfestingum árið 2026.
4. Skuldastaða A - hluta fari ekki yfir 80% af tekjum.
5. Handbært fé í árslok verði að lágmarki 500 millj.kr.
6. Gjaldskrá þjónustugjalda haldist í takt við þróun verðlags.
7. Fjárfestingar verði sem mest fjármagnaðar með skatttekjum og söluhagnaði eigna á næstu árum, þannig að lántökum verði haldið í lágmarki.
A - og B - hluti:
1. Að standast fjárhagsleg viðmið um jafnvægisreglu og skuldareglu sbr. 64.gr. sveitarstjórnarlaga 138/2011.

Eins og niðurstöður fjárhagsáætlunar eru fyrir árið 2026 er öllum framangreindum markmiðum náð.

Í forsendum fjárhagsáætlunar ársins 2026 er álagningarhlutfall útsvars óbreytt frá fyrra ári, eða 14,97%, álagningarhlutfall fasteignaskatta á íbúðarhúsnæði er lækkað úr 0,28% í 0,23% og almenn þjónustugjaldskrá er uppfærð miðað við verðlagsþróun og er algeng breyting á bilinu 3,6% - 4,5%. Álagningarstuðull vatnsgjalds vegna íbúðarhúsnæðis er lækkaður úr 0,13% niður í 0,11% eða um 15,4% frá fyrra ári. Gjaldskrá sorpgjalda og sorphirðu er óbreytt frá fyrra ári og er það annað árið í röð sem gjaldskráin tekur ekki breytingum. Áhersla er lögð á það að góður árangur íbúa við flokkun á sorpi skilar sér í það miklum tekjum frá Úrvinnslusjóði að ekki er ástæða til að hækka gjöld á íbúa vegna sorpmála. Fyrir það eiga íbúar Suðurnesjabæjar þakkir skildar og fá hrós fyrir. Ýmsir útgjaldaliðir eru uppfærðir út frá verðlagsþróun og áætlun um launakostnað byggir á kjarasamningum.

Með nýjum lögum um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, sem taka gildi 1.janúar 2026, munu framlög Jöfnunarsjóðs til Suðurnesjabæjar lækka nokkuð frá því sem verið hefur samkvæmt eldri lögum. Hluti af lækkun framlaga kemur til framkvæmdar árið 2026 og til viðbótar munu framlögin lækka 2027, en samkvæmt upplýsingum frá Jöfnunarsjóði munu framlög haldast stöðugri eftir það.

Í rekstraráætlun fyrir A hluta bæjarsjóðs eru heildartekjur áætlaðar 7.468 mkr., framlegð rekstrar fyrir afskriftir og fjármagnsliði er áætluð 733 mkr., eða 9,8% og rekstrarniðurstaða jákvæð 325 mkr., eða 4,4% af tekjum.

Í rekstraráætlun fyrir samstæðu A og B hluta eru heildartekjur áætlaðar 7.786 mkr. og framlegð rekstrar fyrir afskriftir og fjármagnsliði 958 mkr., eða 12,3%. Að teknu tilliti til afskrifta og fjármagnsliða er rekstrarniðurstaða A og B hluta áætluð jákvæð að fjárhæð 406 mkr., sem er 5,2% af tekjum.

Í sjóðstreymisyfirliti er veltufé frá rekstri A og B hluta 996 mkr., eða 12,8% og handbært fé frá rekstri 945 mkr. Fjárfestingaáætlun er alls 973 mkr. og er áætlað að tekin verði ný lán allt að fjárhæð 250 mkr., sem er 25,6% af áætluðum heildar fjárfestingum, en afborganir langtímaskulda eru áætlaðar 378 mkr. Áætlað er að handbært fé samstæðu A og B hluta í árslok 2026 verði 851 mkr.

Helstu fjárfestingar á árinu 2026 í fjárfestingaáætlun eru meðal annars áframhald gatnagerðar og uppbygging innviða í nýjum íbúðahverfum, samgöngu og umferðarmál. Þá má nefna fjárfestingar í skólum og leikskólum, íþróttamannvirkjum og opnum svæðum. Í B hluta eru áætlaðar fjárfestingar í vatnsveitu og fráveitu, ásamt endurbyggingu grjótvarnagarðs Sandgerðishafnar.

Íbúafjöldi í Suðurnesjabæ samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu var 4.090 um síðustu áramót og í lok september sl. voru 4.220 íbúar skráðir í Suðurnesjabæ. Á þessu tímabili á árinu 2025 hefur íbúum fjölgað um 130, eða 3,2%. Í forsendum fjárhagsáætlunar er gert ráð fyrir að íbúum fjölgi um 3,0% á ári næstu árin, samkvæmt miðspá í húsnæðisáætlun sveitarfélagsins.

Efnahagsleg staða sveitarfélagsins er góð og er áætlað að skuldaviðmið skv. reglugerð 502/2012 hjá samstæðu A og B hluta verði 55,7% í árslok 2026 og því vel undir 150% viðmiði skv. fjármálareglu Sveitarstjórnarlaga.

Í þriggja ára áætlun áranna 2027-2029 er gert ráð fyrir að rekstrarafkoma sveitarfélagsins og efnahagsleg staða standist fjármálareglur Sveitarstjórnarlaga á tímabilinu og er það samkvæmt markmiði bæjarstjórnar.


Bókun meirihluta um fjárhagsáætlun:

Meirihluti bæjarstjórnar lýsir ánægju með fjárhagsáætlun 2026 og þriggja ára áætlun 2027-2029. Áætlunin er afrakstur góðrar vinnu starfsfólks sveitarfélagsins ásamt vinnu bæjarfulltrúa. Niðurstaða hennar felur í sér góða efnahagslega og rekstrarlega stöðu sem skapar áfram forsendur til að veita íbúum góða þjónustu. Fjárhagsáætlunin endurspeglar öll þau markmið sem sett voru fyrir vinnslu fjárhagsáætlunarinnar þrátt fyrir að mikil tekjulækkun frá Jöfnunarsjóði komi til á næstu tveimur árum vegna breytinga á reglum.
Sem fyrr er ánægjulegt að skuldaviðmið sé vel undir viðmiði skv. fjármálareglu sveitarstjórnarlaga og að rekstrarafkoma tímabilsins standist jafnvægisreglu sveitarstjórnarlaga á tímabilinu.
Álagningarhlutfall fasteignaskatta lækkar úr 0,28% í 0,23% til að mæta mikilli hækkun á fasteignamati á íbúðarhúsnæði. Þá er álagningarstuðull vatnsgjalds lækkaður um 15% af sömu forsendu.
Gjaldskráin endurspeglar stuðning við barnafjölskyldur og hefur frístundastyrkur verið hækkaður í 55.000 krónur á barn og áfram verður frítt í sund fyrir börn á aldrinum 0-18 ára.
Áframhaldandi uppbygging er á íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu og verður haldið áfram með uppbyggingu gatna í báðum byggðakjörnum á næstu árum. Önnur stór verkefni sem vert er að nefna er að gert er ráð fyrir að klára göngu- og reiðhjólastíga frá báðum byggðakjörnum til Reykjanesbæjar á næsta ári og þannig auka til muna öryggi íbúa og efla lýðheilsu í heilsueflandi samfélagi. Þá verður farið í að skipta út gervigrasi á sparkvöllum við skólana og jafnframt færa völlinn við Gerðaskóla á betri stað. Íþróttasvæði fá veglega upplyftingu, meðal annars verður malbikað plan við Golfklúbb Sandgerðis. Áfram verður haldið í uppbyggingu leik- og útivistarsvæða í sveitarfélaginu. Umhverfi við Sandgerðiskirkju verður lagað og malbikað og þá verður einnig Útskálahúsið klárað á næstu tveimur árum. Á árinu 2026 er gert ráð fyrir að stjórnsýslu verði komið fyrir á einum stað að Sunnubraut 4 og í framhaldi mun húsnæði Vörðunnar verða breytt með þarfir eldri íbúa okkar í huga, bæði verði þar þjónustu- og félagsrými auk íbúða fyrir eldri borgara.
Gert er ráð fyrir byggingu búsetukjarna fyrir fatlaða í Garði sem verði byggt af Brynju leigufélagi með stofnframlagi sveitarfélagsins. Þörf er á stækkun Sandgerðisskóla og farið verður í þarfagreiningu og hönnun á stækkun hans. Til að mæta brýnni húsnæðisþörf mun húsnæði í Sólborg verða lagfært og nýtt undir skólasel og eftirskólaúrræði auk þess sem félagsmiðstöðin verður flutt þangað.

Á þessari upptalningu, sem er þó alls ekki tæmandi, má sjá að verkefnin eru mörg og krefjandi og ánægjulegt að geta sett þau af stað á nýju ári.

Bæjarfulltrúar hafa unnið að gerð fjárhagsáætlunar á formlegum fundum og einnig á óformlegum vinnufundum með bæjarstjóra og sviðsstjórum Suðurnesjabæjar. Fundirnir voru vel skipulagðir og upplýsandi fyrir bæjarfulltrúa. Á fundunum gátu bæjarfulltrúar komið með tillögur og ábendingar inn í fjárhagsáætlunarvinnuna.
Meirihluti bæjarstjórnar þakkar bæjarstjóra og starfsfólki fyrir mikla og góða vinnu og gott samstarf við vinnslu fjárhagsáætlunar. Þá þakkar meirihluti bæjarstjórnar starfsfólki Suðurnesjabæjar fyrir vel unnin störf á árinu.


Afgreiðsla:

Þjónustugjaldskrá samþykkt með 6 atkvæðum meirihluta D, O og S lista. Fulltrúar B lista og bæjarfulltrúi Magnús Sigfús Magnússon sátu hjá.

Gjaldskrá Sandgerðishafnar samþykkt með 6 atkvæðum meirihluta D, O og S lista. Fulltrúar B lista og bæjarfulltrúi Magnús Sigfús Magnússon sátu hjá.

Gjaldskrá vatnsveitu í þéttbýlinu í Sandgerði samþykkt með 6 atkvæðum meirihluta D, O og S lista. Fulltrúar B lista og bæjarfulltrúi Magnús Sigfús Magnússon sátu hjá.
Gjaldskráin samþykkt til birtingar í Stjórnartíðindum.

Fjárhagsáætlun og 3ja ára áætlun samþykkt með 6 atkvæðum meirihluta D, O og S lista. Fulltrúar B lista og bæjarfulltrúi Magnús Sigfús Magnússon sátu hjá.


Bókun frá bæjarfulltrúum Anton K. Guðmundssyni og Magnúsi Sigfúsi Magnússyni:

Þó meirihlutinn lækki álagningarstuðla á fasteignaskatt er hann á sama tíma að hækka aðra álagningarstuðla. Af þeim sökum hækka skattar á fasteignaeigendur í Suðurnesjabæ milli áranna 2025 og 2026 um 29.711.812 kr.
Bæjarfulltrúarnir Anton K. Guðmundsson og Magnús Sigfús Magnússon vilja jafnframt gera athugasemdir við skort á samráði við gerð fjárhagsáætlunarinnar. Minnihlutinn fékk einungis aðkomu að tveimur vinnufundum þar sem eingöngu var farið yfir glærur og engar ákvarðanir teknar, auk þess sem ákvörðun um fundartíma var ekki í samráði við fulltrúa minnihlutans. Þetta fyrirkomulag samráðs var því hvorki fullnægjandi né í samræmi við það sem telja má eðlilegt í lýðræðislegum vinnubrögðum.
Af ofangreindum ástæðum geta bæjarfulltrúarnir Anton K. Guðmundsson og Magnús Sigfús Magnússon ekki stutt framlagða fjárhagsáætlun og sitja því hjá við afgreiðslu hennar.

2.Fjárhagsáætlun 2025 - Viðaukar

2503132

a) Viðauki nr. 6, rekstur Gefnarborgar.

b) Viðauki nr. 7, endurskoðuð fjárfestingaáætlun 2025.

v) Viðauki nr. 8, launaliðir í rekstri Lækjamóta.
Tók til máls: EJP.

Afgreiðsla:

A)Viðauki nr.6, rekstur Gefnarborgar samþykktur samhljóða.
B)Viðauki nr.7, endurskoðuð fjárfestingaáætlun 2025 samþykkt með 6 atkvæðum meirihluta D, O og S lista. Fulltrúar B lista og bæjarfulltrúi Magnús Sigfús Magnússon greiddu atkvæði á móti.
C)Viðauki nr. 8, launaliðir í rekstri Lækjamóta samþykktur samhljóða.

3.Stefna Suðurnesjabæjar um málefni eldri borgara - Stýrihópur 2025

2501108

Á 179.fundi bæjarráðs dags. 26.11.2025 var samþykkt samhljóða að vísa drögum að stefnu í málaflokkum eldri borgara ásamt aðgerðaáætlun til bæjarstjórnar til staðfestingar.
Afgreiðsla:
Bæjarstjórn samþykkir samhljóða að staðfesta stefnu í málaflokkum eldri borgara, ásamt aðgerðaáætlun. Bæjarstjórn leggur áherslu á að stefnan verði kynnt fyrir íbúum.

4.Félagsstarf eldri borgara

2402091

Á 179.fundi bæjarráðs dags. 26.11.2025 var fjallað um minnisblað með tillögum um samræmingu á opnunartíma og þjónustu í félagsstarfi eldri borgara í Suðurnesjabæ. Bæjarráð þakkaði tillögurnar og samþykktu fulltrúar S og O lista að vísa þeim til frekari úrvinnslu, fulltrúi B lista greiddi atkvæði á móti.
Tóku til máls: AKG, MSM, EJP, LE, JM, SÓÞ, ÖB og SBJ

Afgreiðsla:
Tillaga bæjarfulltrúa B lista Antons Kristins Guðmundssonar um að vísa málinu aftur til bæjarráðs samþykkt samhljóða.

5.Stuðningsþjónusta

1909037

Á 62.fundi fjölskyldu-og velferðarráðs dags. 06.11.2025 var samþykkt að reglum um félagslegt leiguhúsnæði hjá Suðurnesjabæ verði vísað til bæjarstjórnar til samþykktar.
Afgreiðsla:
Samþykkt samhljóða að staðfesta reglur um félagslegt húsnæði hjá Suðurnesjabæ.

6.Bæjarráð - 178

2511010F

178. fundur dags. 12.11.2025.
Tóku til máls: SÓÞ, EJP og SBJ.

Afgreiðsla:
Lagt fram.

7.Bæjarráð - 179

2511020F

179. fundur dags. 26.11.2025.
Tóku til máls: AKG, EJP, MS og MSM.

Afgreiðsla:
Lagt fram.

8.Bæjarráð - 180

2511027F

180. fundur dags. 03.12.2025.
Tóku til máls: AKG og EJP.

Afgreiðsla:
Lagt fram.

9.Íþrótta- og tómstundaráð - 33

2511001F

33. fundur dags. 06.11.2025.
Tóku til máls: SÓÞ og EJP.

Afgreiðsla:
Lagt fram.

10.Fjölskyldu- og velferðarráð - 62

2511004F

62. fundur dags. 06.11.2025
Afgreiðsla:
Lagt fram.

11.Hafnarráð - 31

2511009F

31. fundur dags. 11.11.2025.
Tóku til máls: EJP.

Afgreiðsla:
Lagt fram.

12.Framkvæmda- og skipulagsráð - 69

2511014F

69. fundur dags. 19.11.2025.
Tóku til máls: AKG, MS og EJP.

Afgreiðsla:
Lagt fram.

13.Fræðsluráð - 59

2511017F

59. fundur dags. 05.12.2025.
Tóku til máls: SÓÞ, JM og EJP.

Afgreiðsla:
Lagt fram.

14.Samband íslenskra sveitarfélaga - fundargerðir 2025

2502117

a) 988. fundur stjórnar dags. 31.10.2025

b) 989. fundur stjórnar dags. 14.11.2025
Afgreiðsla:
Lagt fram.

15.Svæðisskipulag Suðurnesja - fundargerðir 2025

2502133

55. fundur dags. 13.11.2025
Afgreiðsla:
Lagt fram.

16.Brunavarnir Suðurnesja - fundargerðir 2025

2502134

96. fundur stjórnar dags. 20.11.2025
Afgreiðsla:
Lagt fram.

17.Kalka sorpeyðingarstöð - fundargerðir 2025

2501099

574. fundur stjórnar dags. 29.10.2025
Afgreiðsla:
Lagt fram.

18.Almannavarnarnefnd Suðurnesja utan Grindavíkur - fundargerðir

1905009

Fundargerð 76. fundar dags. 03.12.2025, ásamt drögum að samkomulagi um fjármögnun almannavarnafulltrúa og fjárhagsáætlun 2026-2029.
Tók til máls: MS og EJP.

Afgreiðsla:
Samþykkt samhljóða að staðfesta samkomulag um fjármögnun almannavarnafulltrúa og fjárhagsáætlun samþykkt samhljóða.

Fundaragerðin lögð fram.

Fundi slitið - kl. 19:37.

Getum við bætt efni síðunnar?