Fara í efni

Bæjarráð

159. fundur 12. febrúar 2025 kl. 15:30 - 16:49 í Ráðhúsinu í Garði
Nefndarmenn
  • Sigursveinn Bjarni Jónsson formaður
  • Einar Jón Pálsson varaformaður
  • Laufey Erlendsdóttir aðalmaður
  • Anton Kristinn Guðmundsson áheyrnarfulltrúi
  • Magnús Stefánsson bæjarstjóri
Fundargerð ritaði: Árni Gísli Árnason sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Dagskrá

1.Sérstakur húsnæðisstuðningur

1806132

Tillögur um breytingar á tekjuviðmiðum vegna sérstaks húsnæðisstuðnings.
Afgreiðsla:
Samþykkt samhljóða að staðfesta tekjuviðmiðin eins og lagt er til.

2.Búsetuúrræði fyrir börn með fjölþættan vanda

2406068

Minnisblað um málefnið. Hilmar Jón Stefánsson teymisstjóri barnaverndar sat fundinn undir þessum dagskrárlið.
Fyrir liggur erindi frá velferðarsviði Suðurnesjabæjar, þar sem óskað er eftir fjárheimild að fjárhæð kr. 86.500.000 til viðbótar við fjárheimild í fjárhagsáætlun 2025. Í erindinu kemur fram að um er að ræða búsetuúrræði fyrir tvo einstaklinga í einkareknum úrræðum og er áætlað að kostnaður vegna þeirra fyrstu 5 mánuði ársins 2025 verði kr. 136.500.000.

Bæjarráð getur ekki samþykkt að rekstur sveitarfélagsins geti staðið undir þeim kostnaði sem tilgreindur er í erindinu, hvað þá ef framhald væri á þessum úrræðum út allt árið. Samkvæmt erindinu má reikna með að á árinu 2025 gæti umræddur kostnaður alls orðið nálægt kr. 330.000.000. Það er algerlega augljóst að þetta dæmi getur ekki með nokkru móti gengið upp. Ef sveitarfélagið neyðist til að standa undir þessum kostnaði þarf bæjarstjórn annað hvort að ráðast í mikinn niðurskurð á þjónustu við íbúa sveitarfélagsins eða að rekstrarniðurstaða ársins verður verulega neikvæð. Ef það verður niðurstaðan mun Suðurnesjabær ekki standast fjármálareglu sveitarstjórnarlaga, sem kallar á afskipti ráðuneytis og Eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga.

Bæjarráð ítrekar fyrri ályktanir um málið, sem og erindi sem send hafa verið til ráðuneyta, ríkisstofnana og alþingismanna. Þá vísar bæjarráð til funda og samtala sem bæjarstjóri hefur ásamt starfsfólki velferðarsviðs átt við ráðherra, embættismenn og fulltrúa ríkisstofnana sem málið varðar.

Bæjarráð Suðurnesjabæjar sendir neyðarkall til stjórnvalda um að taka sér tak, bæta nú þegar úr því úrræðaleysi sem ríkir í málaflokknum og koma til framkvæmda tillögum nokkurra starfshópa sem hafa fjallað um þá nauðsynlegu þjónustu sem viðkomandi einstaklingar þurfa á að halda, síðast í áfangaskýrslu II sem kom út í september 2024 þar sem fram koma tillögur um aðgerðir til að mæta því ófremdarástandi sem uppi er í þjónustu við börn með fjölþættan vanda. Þar er m.a. lagt til að ríkið annist þjónustu og úrræði fyrir viðkomandi einstaklinga. Grundvallar atriði er að taka utan um viðkomandi einstaklinga, veita þeim þjónustu við hæfi og hlúa að þeim með uppbyggilegum hætti, eins og almennt ber að gera gagnvart börnum.

Bæjarráð samþykkir samhljóða að fela bæjarstjóra að koma ályktun bæjarráðs á framfæri við ráðuneyti og stofnanir sem málið varðar, sem og við alþingismenn og Umboðsmann barna. Einnig sendir bæjarráð ákall til Sambands íslenskra sveitarfélaga um að setja þetta mál í forgang í samskiptum við ríkisvaldið.

Bæjarráð samþykkir samhljóða að fresta því að taka afstöðu til erindisins frá velferðarsviði.

3.Umferðaröryggisáætlun Suðurnesjabæjar

2409078

Mál á dagskrá að beiðni B-lista. Varðar umferðaröryggi gangandi og akandi við Sandgerðisveg.
Bókun frá B-lista:
B-listi Framsóknar lýsir yfir þungum áhyggjum vegna stöðu öryggismála gangandi og akandi vegfarenda við gangbrautina sem liggur yfir Sandgerðisveg í átt að Sandgerðisskóla.
Um er að ræða ein mestu eknu gatnamót sveitarfélagsins, þar sem gangbraut liggur yfir stofnveg (vegnúmer 429). Með tilkomu nýs íbúðarhverfis í Skerjahverfi hefur umferð um gatnamótin aukist til muna, og telur B-listi Framsóknar því mikilvægt að setja aukinn kraft í þau samtöl og vinnu sem snúa að gerð hringtorgs við Byggðaveg, við innkomu í byggðarkjarnann Sandgerði í Suðurnesjabæ. Með því yrði hægt að ná niður umferðarhraða og auka umferðaröryggi á gatnamótunum Byggðavegs, Sandgerðisvegar og Skerjahverfis.
Einnig telur B-listi mikilvægt að bláhattalýsing verði sett upp hið fyrsta við gangbrautina til að auka sýnileika gangandi vegfarenda.

Afgreiðsla:
Lagt fram.

4.Styrkir til félagasamtaka vegna fasteignagjalda 2025

2502020

Reglur um styrki til félagasamtaka til greiðslu fasteignagjalda.
Afgreiðsla:
Samþykkt samhljóða að fela sviðsstjóra stjórnsýslu-og fjármálasviðs fullnaðarafgreiðslu mála skv. 4.gr. regla um styrki til félagasamtaka vegna fasteignagjalda, ef þau varða ekki fjárhag sveitarfélagsins umfram það sem kveðið er á um í fjárhagsáætlun.

5.Umsagnarbeiðni - tækifærisleyfi til áfengisveitinga

2502035

Erindi frá Sýslumanninum á Suðurnesjum, ósk um umsögn um umsókn Knattspyrnudeildar Reynis um tækifærisleyfi til áfengisveitinga vegna konu-og karlakvölda 7. og 8.mars 2025.
Afgreiðsla:
Með vísan til 10.gr. laga nr. 85/2007 samþykkir bæjarráð samhljóða að staðfesta að umsóknin uppfyllir skilyrði sem falla undir 1.tölulið lagagreinarinnar.

6.Umsagnabeiðni - Veitingaleyfi í flokki C - Veitingastofa og greiðasala

2502050

Erindi frá Sýslumanninum á Suðurnesjum, ósk um umsögn varðandi umsókn frá FÍA ehf um leyfi til reksturs veitingastaðar í flokki II-C, veitingastofa og greiðasala að Strandgötu 15.
Afgreiðsla:
Með vísan til 10.gr. laga nr. 85/2007 samþykkir bæjarráð samhljóða að staðfesta að umsóknin uppfyllir skilyrði sem falla undir 1.tölulið lagagreinarinnar.

7.Opið samráð um áform um lagasetningu - mat á fjárhagslegum áhrifum frumvarpa á sveitarfélög

2502037

Erindi frá innviðaráðuneyti þar sem vakin er athygli á opnu samráði varðandi áform um breytingar á sveitarstjórnarlögum vegna mats á fjárhagslegum áhrifum lagafrumvarpa á sveitarfélög.
Afgreiðsla:
Lagt fram.

8.Stafræn þjónusta

2003042

Árni Gísli Árnason sviðsstjóri stjórnsýslu-og fjármálasviðs, yfirferð um stöðu stafrænna verkefna hjá Suðurnesjabæ.
Afgreiðsla:
Lagt fram.

Fundi slitið - kl. 16:49.

Getum við bætt efni síðunnar?