Fara í efni

Bæjarráð

153. fundur 29. október 2024 kl. 15:30 - 17:11 í Ráðhúsinu í Garði
Nefndarmenn
  • Sigursveinn Bjarni Jónsson formaður
  • Einar Jón Pálsson varaformaður
  • Jónína Magnúsdóttir varamaður
  • Anton Kristinn Guðmundsson áheyrnarfulltrúi
  • Magnús Stefánsson bæjarstjóri
Fundargerð ritaði: Árni Gísli Árnason sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Dagskrá

1.Fjárhagsáætlun 2025-2028

2405023

Drög að fjárhagsáætlun ásamt útsvarsálagningu. Kjartan Ingvarsson sérfræðingur fjármála sat fundinn undir þessum dagskrárlið.
Afgreiðsla:
Samþykkt samhljóða að vísa drögum að fjárhagsáætlun til fyrri umræðu í bæjarstjórn ásamt tillögu um álagningarhlutfall útsvars.

2.Fjárhagsáætlun 2024 - viðaukar

2308041

Viðauki 4 - Búsetuúrræði fyrir börn með fjölþættan vanda. Kjartan Ingvarsson sérfræðingur fjármála sat fundinn undir þessum dagskrárlið.
Afgreiðsla:
Viðauki samþykktur samhljóða og vísað til staðfestingar í bæjarstjórn.

3.Suðurnesjabær - Samþykkt um gatnagerðargjöld

2211128

Drög að uppfærðri samþykkt um gatnagerðargjöld o.fl.
Afgreiðsla:
Tillaga um breytingar á samþykkt um gatnagerðargjöld o.fl. samþykkt samhljóða og vísað til bæjarstjórnar til staðfestingar.
Ákveðið að miða við tillögu B.

4.Íþróttastarfsemi í Suðurnesjabæ

2410107

Drög að viljayfirlýsingu milli Knattspyrnufélagsins Reynis, Knattspyrnufélagsins Víðis og Suðurnesjabæjar um stofnun nýs íþróttafélags í Suðurnesjabæ. Stefnt er að stofnun nýs félags haustið 2025.
Afgreiðsla:
Samþykkt samhljóða að veita bæjarstjóra umboð til að undirrita viljayfirlýsinguna. Bæjarráð lýsir ánægju með frumkvæði og framgöngu íþróttafélaganna með viljayfirlýsingunni. Stofnun og starfsemi eins íþróttafélags í Suðurnesjabæ er mikilvægt framlag við að sameina íbúa sveitarfélagsins í einu samfélagi og til að efla íþróttastarf til framtíðar.

5.Íþróttamannvirki

1901070

Erindi frá Knattspyrnufélaginu Reyni og Knattspyrnufélaginu Víði um uppbyggingu knattspyrnumannvirkja í Suðurnesjabæ.
Afgreiðsla:
Samþykkt samhljóða að leggja til við bæjarstjórn að samþykkja eftirfarandi tillögur íþróttafélaganna sem fram koma í erindinu:

Knattspyrnuvöllur í Sandgerði (núverandi Bronsvöllur) verði skilgreindur sem aðalvöllur hja nýju félagi í Suðurnesjabæ þannig að hann standist kröfur sem keppnisvöllur í efstu stigum íslenskrar knattspyrnu. Gerð verði tímasett áætlun um nauðsynlegar framkvæmdir vegna þessa þannig að völlurinn geti þjónað hlutverki sínu sem heimavöllur nýs íþróttafélags keppnistímabilið 2026.

Nýr upphitaður gervigrasvöllur með flóðlýsingu verði staðsettur á gamla malarvelllinum í Garði og verði skilgreindur sem vetraraðstaða til æfinga og keppni í knattspyrnu. Lögð er áhersla á að framkvæmdir við gervigrasvöll vinnist eins hratt og hægt er, þannig að hann verði tilbúinn til notkunar fyrir veturinn 2025/2026.

Knattspyrnuvöllur í Garði (núverandi Nesfiskvöllur) verði áfram notaður til æfinga og keppni þegar þarf, en þar verði ekki farið í framkvæmdir til að viðhalda eða byggja upp áhorfendamannvirki. Hætt verði að nota æfingasvæði á túni norðvestan við völlinn.

Klefar og aðstaða í húsum félaganna, Reynisheimilinu og Víðisheimilinu, verði notaðar fyrir knattspyrnuvellina.

Tryggja þarf góðar og reglulegar samgöngur á milli byggðakjarnanna til að börn og ungmenni eigi greiðan aðgang að æfingum og leikjum sem eru ekki í göngufæri við heimili þeirra.

Unnið verði að áframhaldandi uppbyggingu íþróttamannvirkja í Suðurnesjabæ í samvinnu sveitarfélags og hins nýja íþróttafélags á komandi árum.

Bæjarráð gerir fyrirvara um framkvæmdatíma á uppbyggingu gervigrasvallar.

6.Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna

2409048

Á 49.fundi fræðsluráðs dags. 18.10.2024 var til umfjöllunar minnisblað með samantekt um málið og var samþykkt að vísa málinu til afgreiðslu í bæjarráði.
Afgreiðsla:
Samkvæmt minnisblaðinu liggur fyrir að umfang verkefnisins er töluvert, m.a. að skipa þurfi stýrihóp og ráða verkefnastjóra til vinnslu málsins og innleiðingar. Bæjarráð óskar eftir að unnið verði frekara mat á umfangi og kostnaði við verkefnið.

7.Dagforeldrar

2001112

Á 49.fundi fræðsluráðs dags. 18.10.2024 var til umfjöllunar minnisblað um styrki til dagforeldra í Suðurnesjabæ og liggur fyrir tillaga um úthlutun styrkja.
Afgreiðsla:
Samþykkt samhljóða að vísa reglum um styrki til dagforeldra til afgreiðslu í bæjarstjórn þar sem gengið verði út frá því að reglurnar taki gildi frá næstu áramótum.

8.Skólavist utan lögheimilissveitarfélags

2106057

Minnisblað um kostnað vegna skólavistar grunnskólanemenda utan lögheimilis.
Afgreiðsla:
Samþykkt samhljóða að fela bæjarstjóra að láta vinna viðauka við fjárhagsáætlun 2024 vegna þess kostnaðar sem gerð er grein fyrir í minnisblaðinu.

Fundi slitið - kl. 17:11.

Getum við bætt efni síðunnar?