Vígsla leikskólans Grænuborgar
Þann 25.nóvember 2024 var nýr og glæsilegur leikskóli Grænaborg formlega vígður og tekinn í notkun. Leikskólinn hóf starfsemi í Grænuborg eftir sumarleyfi þann 8.ágúst sl. og framkvæmdum við lóð og umhverfi utanhús lauk nú í byrjun nóvember.
Í apríl 2019 samþykkti bæjarstjórn að hafinn verði undirbúningur að byggingu á nýjum leikskóla í Sandgerði. Í október sama ár var skipaður stýrihópur sem fékk það verkefni að halda utan um undirbúning framkvæmda. Stýrihópinn skipuðu Fríða Stefánsdóttir, Hólmfríður Skarphéðinsdóttir og Magnús Sigfús Magnússon. Með stýrihópnum unnu Jón Ben Einarsson sviðsstjóri skipulags-og umhverfissviðs og Guðrún B Sigurðardóttir sviðsstjóri fjölskyldusviðs.
Í febrúar 2021 samþykkti bæjarstjórn tillögu frá stýrihópnum um val á hönnuði leikskólans og jafnframt að hannaður verði 6 deilda leikskóli. Upphaflega var gert ráð fyrir að 4 deildir væru fullkláraðar og 2 deildir fullkláraðar síðar, en í júní 2023 var ákveðið að fullklára leikskólann með 6 deildum. Í nóvember 2021 samþykkti bæjarráð að veita heimild til útboðs á framkvæmdum við uppbyggingu á nýjum leikskóla við Byggðaveg og í janúar 2022 voru opnuð tilboð í verkið. Í mars 2022 samþykkti bæjarstjórn að gengið væri til samninga við aðal verktaka verksins. Það var svo í september 2023 sem bæjarráð samþykkti að veita heimild til samninga við hönnuð lóðarinnar.
Fyrsta skóflustunga að leikskólanum var tekin í október 2021 og um þá framkvæmd sáu fjögur leikskólabörn úr leikskólunum Sólborgu og Gefnarborg. Eftir að leitað var eftir hugmyndum frá íbúum um nafn leikskólans samþykkti bæjarstjórn í desember 2023 að leikskólinn fengi nafnið Grænaborg.
- Arkitekt og aðalhönnuður leikskólans var JeeS arkitektar, Jón Stefán Einarsson.
- Burðarþolshönnun annaðist Verkfræðistofa Suðurnesja.
- Lagna-og loftræstihönnun var í höndum Teknik verkfræðistofu.
- Raflagna-og lýsingarhönnun annaðist Lota.
- Hljóðhönnun var unnin af Brekke & Strand Akustikk.
- Brunahönnun vann Örugg verkfræðistofa.
- Lóðarhönnun var unnin af Landslagi.
- Bragi Guðmundsson ehf var aðal verktaki leikskólans.
- Lagnir & Þjónusta sá um pípulagnir.
- Amp rafverktaki vann að raflögnum.
- Blikksmiðja Suðurnesja sá um loftræstingu.
- SB Málun var málningarverktaki.
- Grindin ehf. smíðaði innréttingar í húsið.
- Flötur ehf lagði gólfdúka.
- Grjótgarðar ehf annaðist framkvæmdir við hringtorg, aðkomusvæði, lóð og leiktæki á lóð.
- Ellert Skúlason ehf og Gröfuþjónusta Tryggva Einarssonar sáu um jarðvinnu.
Umsjón og eftirlit með framkvæmdum var í höndum Jóns Ben Einarssonar sviðsstjóra skipulags-og umhverfissviðs.
Framkvæmdakostnaður verður hátt í 1.300.000.000 þegar allt verður upp gert og er framkvæmdin lang stærsta fjárfesting Suðurnesjabæjar til þessa. Í leikskólanum er gert ráð fyrir að um 130 börn verði í leikskólanum hverju sinni.
Suðurnesjabær þakkar þeim fjölmörgu sem hafa á einn eða annan hátt komið að undirbúningi og hönnun ásamt uppbyggingu leikskólabyggingarinnar, lóðar og annarra mannvirkja. Það hefur verið vel að verki staðið og allir aðilar skilað sínum verkefnum með miklum sóma.
Suðurnesjabær rekur leikskólann Grænuborg og leikskólastjóri er Arnbjörg Elsa Hannesdóttir. Fyrir hönd Suðurnesjabæjar afhenti Magnús Stefánsson bæjarstjóri leikskólastjóranum leikskólann til umsjónar og reksturs.
Sr. Sigurður Grétar Sigurðarson blessaði húsið og starfsemina í húsinu við vígslu leikskólans. Hafdís Guðrún Hilmarsdóttir sviðsstjóri mennta- og tómstundasviðs og Magnús Stefánsson bæjarstjóri afhentu leikskólastjóra vináttuverkefni Barnaheilla og ástralska furu að gjöf frá starfsfólki Suðurnesjabæjar.
Börnin í leikskólanum sungu nokkur vel valin lög og leikskólastjóri flutti ávarp. Að lokinni formlegri dagskrá var fjölmörgum gestum boðið upp á kaffiveitingar og loks var viðstöddum boðið að taka þátt í að kjósa milli nokkurra tillagna um merki leikskólans Grænuborgar og verður upplýst um niðurstöðu þeirrar kosningar innan skamms.