Fara í efni

Vel sóttur fundur um mögulega stofnun nýs íþróttafélags í Suðurnesjabæ

Vel sóttur fundur um mögulega stofnun nýs íþróttafélags í Suðurnesjabæ

Þann 14. janúar síðastliðinn var haldinn opinn íbúafundur í Gerðaskóla þar sem rætt var um framtíð íþróttastarfs í Suðurnesjabæ og mögulega stofnun nýs íþróttafélags. Fundurinn var vel sóttur og mættu um 100 manns til að leggja sitt af mörkum í umræðum og hugmyndavinnu.

Markmið fundarins var að skapa vettvang fyrir íbúa til að tjá sig um hugmyndina um stofnun nýs íþróttafélags. Umræðurnar miðuðu að því að draga fram helstu áhyggjur, hugmyndir og tækifæri sem fylgja slíkri stofnun. Ekki var um að ræða að taka lokaákvörðun heldur var fundurinn liður í þeirri stefnumótunarvinnu sem er í gangi.

Fundurinn hófst á kynningu á framtíðarsýn íþróttamála í Suðurnesjabæ sem var mótuð á árinu 2023 og samþykkt í bæjarstjórn í desember sama ár. Fulltrúar íþróttafélaga, golfklúbbur, bæjarstjórn, stjórnsýsla, íþrótta- og tómstundaráð, ungmennaráð og foreldrafélög grunnskóla komu að þeirri vinnu.

Samráðsteymi sem skipað er fulltrúuum frá íþróttafélögunum Víði og Reyni, sem og fulltrúum frá Suðurnesjabæ, kynnti starf sitt og tímaáætlun. Teymið vinnur að því að leggja drög að stofnun nýs félags og stöðuga uppbyggingu íþróttastarfsins. Ákvörðun um stofnun nýs félags er í höndum íþróttafélaganna Víði og Reynis og mun nánari umfjöllun fara fram á aðalfundum þeirra.

Aðalhluti fundarins var skipulagðar umræður í litlum hópum, þar sem fundarmenn fengu tækifæri til að setja fram sínar skoðanir og hugmyndir. Umræðuefnin voru að mestu leyti tengd framtíðarsýn íþróttastarfs í bænum og tækifærum sem felast í því að vera með eitt íþróttafélag.

Helstu niðurstöður voru:

  • Sterkara og faglegra íþróttastarf: Mörgum fundarmanna fannst að eitt íþróttafélag gæti skapað samheldni og geta eflt fagmennsku innan íþróttastarfsins.
  • Betri nýting fjármuna: Einfaldari rekstur og aukið gagnsæi, aukin styrktartækifæri og betri ýtök við stærri styrktaraðila.
  • Söguleg arfleifð: Mikilvægt að halda utan um sögu og hefðir eldri félaganna og tryggja að minjar og sögulok þeirra verði varðveitt.
  • Aðstaða og umgjörð: Fundarmenn voru flestir sammála um að mikilvægt er að fara í markvissa uppbyggingu íþróttamannvirkja. Áhugaverðar hugmyndir komu einnig fram um áframhaldandi nýtingu á aðstöðu í bæjarkjörnunum.
  • Samgöngur og aðgengi: Fundarmenn vísuðu í nauðsyn bættra samgangna fyrir börn og ungmenni, m.a. frístundarútur milli bæjarkjarna.

Fundurinn var mikilvægur liður í þróun íþróttastarfs í Suðurnesjabæ. Næstu skref felast í frekari rýni á þeim gögnum sem safnast hafa, umfjöllun innan íþróttafélaganna og mati á framhaldinu.

Suðurnesjabær mun upplýsa íbúa um framvindu mála og hvetur alla til að fylgjast með næstu skrefum í þessu spennandi verkefni.