Skógrækt í Suðurnesjabæ – 5.000 tré gróðursett með framtíðina að leiðarljósi

Þann 1. júlí hófst formlegt skógræktarverkefni í Suðurnesjabæ með gróðursetningu fyrstu trjánna á svæði ofan við nýja leikskólann í Sandgerði. Landsvæðið er skilgreint í aðalskipulagi sem „Opin svæði“ með áherslu á útivist, trjárækt og skjólmyndun. Verkefnið markar tímamót í uppbyggingu skipulagðra gróðursvæða í sveitarfélaginu og er liður í langtíma stefnu um sjálfbærni, kolefnisbindingu og aukin útivistartækifæri.
Í fyrsta áfanga verða gróðursett 5.000 tré á um það bil einum hektara lands sem hefur nýlega verið undirbúið sérstaklega fyrir skógrækt. Gróðursetningin felur í sér blöndu af birki, greni, ösp og furu, sem valin eru með tilliti til aðlögunarhæfni og fjölbreytni. Plönturnar koma frá Landi og skógum sem veittu Suðurnesjabæ styrk fyrir verkefninu, auk þess sem Skógræktarfélag Suðurnesja leggur til plöntur og stuðning við framkvæmdina sem hluti af áframhaldandi samstarfi við Suðurnesjabæ.
Ungt fólk í sumarvinnu á vegum Suðurnesjabæjar sinnir gróðursetningunni og verkefnið er unnið í samstarfi við Skógræktarfélag Íslands, sem hefur skilgreint svæðið og mótað ramma fyrir framtíðarskógrækt. Svæðið mun í framtíðinni þróast áfram með það að markmiði að verða aðgengilegt útivistarsvæði fyrir íbúa og gesti, með áherslu á náttúruupplifun, skólaverkefni og samfélagslega þátttöku. Magnús Stefánsson bæjarstjóri og Einar Friðrik Brynjarsson deildarstjóri umhverfismála unnu með unga fólkinu við að gróðursetja fyrstu plönturnar.
Suðurnesjabæjar hvetur íbúa, félagasamtök, skóla og leikskóla til að taka þátt í verkefninu og leggja sitt af mörkum til frekari útplöntunar. Þeim sem hafa áhuga stendur til boða að nýta svæðið áfram til gróðursetningar í samráði við sveitarfélagið og þannig leggja sitt af mörkum til að móta grænna og sjálfbærara samfélag í Suðurnesjabæ. Stjórnun og utanumhald skógræktarinnar er hjá skipulags-og umhverfissviði Suðurnesjabæjar.