Óvirk gangbrautarljós við gatnamót Sandgerðisvegar, Stafnesvegar og Suðurgötu í Sandgerði.
Eins og áður hefur komið fram þá varð bilun í gangbrautarljósum við framangreind gatnamót fyrr í vetur og eru þau búin að vera óvirk í nokkurn tíma.
Unnið hefur verið að því að endurnýja ljósabúnaðinn þannig að þessi mikilvægu gangbrautarljós virki sem skyldi. Því miður hefur dregist nokkuð að fá nýjan ljósabúnað erlendis frá og því hafa orðið tafir á því að koma gangbrautarljósunum í lag. Vonir standa til að gangbrautarljósin verði komin í lag um eða upp úr næstu mánaðamótum.
Gangbrautarljósin eru mjög mikilvægur öryggisbúnaður á þessum stað, sérstaklega vegna gangandi umferðar barna sem stunda nám í Sandgerðisskóla og sækja aðra starfsemi á skólasvæðinu og í íþróttamiðstöðinni.
Suðurnesjabær biðst velvirðingar á þessu og því er beint til foreldra og annarra að gætt sé fyllstu varúðar og öryggis þegar farið er yfir Sandgerðisveg á þessari gangbraut. Jafnframt er því beint til ökumanna sem aka um þetta svæði að gæta fyllstu aðgæslu vegna gangandi umferðar.