Fara í efni

Orðsending frá aðgerðastjórn Suðurnesjabæjar

Orðsending frá aðgerðastjórn Suðurnesjabæjar

Meðfylgjandi orðsending frá aðgerðastjórn Suðurnesjabæjar hefur verið send foreldrum og forráðamönnum barna í skólum Suðurnesjabæjar.

-----------------------------

Til foreldra og forráðamanna nemenda.

Gleðilegt nýtt ár.

Nú hefst skólastarf á nýju ári við þær aðstæður að mikil útbreiðsla er á Covid-19 smitum í samfélaginu.  Af þeim sökum má reikna með að röskun geti orðið á starfsemi skólanna okkar og skipulögðu félagsstarfi.  Í ljósi mikillar útbreiðslu smita í samfélaginu okkar hvetjum við foreldra og forráðamenn barna og nemenda til að huga vel að öllum sóttvörnum og láta nemendur ekki mæta í skóla eða í félagsstarf ef þau hafa minnstu einkenni sem gætu mögulega bent til Covid-19 smits. 

Fyrsti skóladagur í grunnskólunum verður starfsdagur, þannig að stjórnendur og starfsfólk fái tækifæri til að laga starfsemina að aðstæðum í samfélaginu og út frá gildandi sóttvarnareglum.

Miðað við stöðuna í þjóðfélaginu má gera ráð fyrir að á næstu dögum og vikum þurfi jafnvel að loka deildum í leikskólum og að kennsla verði felld niður að einhverju leyti í grunnskólum vegna Covid-19 smita. Þá má einnig gera ráð fyrir að hluti nemenda og starfsfólks sé núþegar í sóttkví eða einangrun þegar skólaárið hefst á nýju ári. Sem fyrr munu stjórnendur skólanna reyna að leysa forföll eins og hægt er hverju sinni og skipuleggja starfsemina þannig að sem minnst röskun verði á henni, vonandi gengur það vel eftir.

Í ljósi stöðunnar í samfélaginu er mikilvægara en nokkru sinni að allir leggi sig fram um að fylgja þeim leiðbeiningum og reglum sem gilda um sóttvarnir, þar sem persónubundnar sóttvarnir eru hvað mikilvægastar.  Mjög mikilvægt er að börn mæti ekki í skólana eða frístundastarfið ef þau finna minnstu kvefeinkenni eða önnur einkenni sem gætu mögulega bent til Covid-19 smits og má finna leiðbeiningar um það á vefsíðunni covid.is.  Ef um einhver einkenni er að ræða þá er mikilvægt að fara í PCR próf til að láta greina hvort um er að ræða Covid-19 smit eða ekki.

Með bestu kveðju og von um að okkur öllum gangi sem best á nýju ári.

Suðurnesjabæ 2. janúar 2022

Aðgerðastjórn Suðurnesjabæjar.