Fara í efni

Íþróttamaður ársins í Suðurnesjabæ árið 2024

Íþróttamaður ársins í Suðurnesjabæ árið 2024

Verðlaunaafhending fór fram í Tónlistarskólanum í Garði 30. janúar síðastliðinn og var viðurkenning fyrir óeigingjarnt starf í þágu íþrótta- og tómstundamála veitt við sama tilefni.

Magnús Stefánsson, bæjarstjóri, bauð gesti velkomna og flutti ávarp þar sem hann fagnaði því efnilega íþróttafólki sem býr í Suðurnesjabæ og lagði áherslu á mikilvægi þátttöku í íþróttum- og tómstundum. Svavar Grétarsson, formaður íþrótta- og tómstundaráðs, afhenti verðlaunin sem og viðurkenningar til þeirra sem hlutu tilnefningar til íþróttamanns ársins 2024. 

Í tilefni af kjöri íþróttamanns ársins var boðið upp á tvö tónlistaratriði frá tónlistarskólum bæjarins, ungir og upprennandi tónlistarmenn stigu á stokk og gerðu athöfnina enn eftirminnilegri. 
Aksturíþróttamaðurinn Almar Viktor Þórólfsson hlaut titilinn íþróttamaðurinn árins 2024 í Suðurnesjabæ. Almar varð Íslandsmeistari í AB-varahlutaflokki rallýs 2024. Hann hefur keppt sem ökumaður síðan 2017 og tryggði sér titilinn með hámarksstigum í þremur af fjórum keppnum ársins. Auk árangurs í rallý er hann þekktur fyrir aðstoð við aðra keppendur, hvort sem það er viðgerðir eða að lána búnað þannig að keppinautar geta haldið sér í keppni. Hann er hvetjandi, hjálpsamur og góður liðsmaður.

Eftirfarandi íþróttamenn hlutu einnig tilnefningu og viðurkenningu fyrir góðan árangur árið 2024:

  • Ástvaldur Ragnar Bjarnason boccia spilari
  • Daníel Arnar Ragnarsson Viborg keppandi í taekwondo
  • Orfeus Andreoues handknattleiksmaður með Víði
  • Sigurður Guðmundsson kylfingur
  • Sindri Lars Ómarsson knattspyrnumaður með Reyni
  • Salóme Kristín Róbertsdóttir knattspyrnukona með Keflavík

Oddur Jónsson hlaut viðurkenningu fyrir óeigingjarnt starf í þágu íþrótta- og tómstundamála.
Hann hefur starfað sem sjálfboðaliði í Björgunarsveitinni Ægi í Garði í heil 40 ár og sinnt þar fjölbreyttum hlutverkum af mikilli elju og fórnfýsi. Oddur Jónsson er einstök fyrirmynd sjálfboðaliða, og með framlagi sínu hefur hann haft mótandi áhrif á starf sveitarinnar og samferðafólk sitt.

Þessi árlegi viðburður tókst afar vel og undirstrikaði mikilvægi þess að heiðra afrek, eldmóð og samfélagslega þátttöku. Hann var ekki einungis tilefni til að fagna árangri liðins árs, heldur einnig hvatning fyrir íþróttafólk okkar til að hefja nýtt og spennandi íþróttaár með auknum metnaði.