Grétar Sigurbjörnsson - Kveðja
Í dag fer fram útför Grétars Sigurbjörnssonar verkefnastjóra Sandgerðishafnar sem varð bráðkvaddur nú í upphafi árs 65 ára að aldri. Andlát Grétars er mikið áfall fyrir fjölskyldu hans og aðstandendur, sem og samstarfsfólk og samfélagið.
Grétar hafði starfað hjá Sandgerðishöfn allt frá árinu 2009 og frá því 2012 verið verkefnastjóri hafnarinnar, þar sem hann hélt utan um og stýrði daglegri starfsemi. Hann lagði mikinn metnað í sín störf og hafði mikinn skilning og þekkingu á öllu því sem varðar útgerð og sjómennsku. Hann var duglegur og kraftmikill starfsmaður sem vildi hag hafnarinnar og viðskiptavina sem mestan og bestan. Grétar var vel liðinn af sínu samstarfsfólki og ekki síður viðskiptavinum hafnarinnar.
Suðurnesjabær, Sandgerðishöfn og allt hans samstarfsfólk þakkar Grétari Sigurbjörnssyni fyrir ánægjulegt og farsælt samstarf. Hans er sárt saknað og það skarð sem hann skilur eftir verður vandfyllt. Í hans anda munu starfsmenn og aðrir sem koma að starfsemi hafnarinnar leggja sig fram um að viðhalda þeirri góðu starfsemi sem verið hefur undir stjórn Grétars og eiga góð samskipti við viðskiptavini hafnarinnar.
Bæjarstjórn Suðurnesjabæjar, hafnarráð Sandgerðishafnar og allt samstarfsfólk Grétars votta fjölskyldu hans og aðstandendum innilegrar samúðar á erfiðum tímum. Minningar um góðan samstarfsmann og félaga munu lifa um ókomna tíð.