Fjölmennt á opnu húsi eldri borgara í Suðurnesjabæ í tilefni af heilsuviku
Í tilefni af heilsuviku í Suðurnesjabæ var haldið opið hús fyrir eldri borgara fimmtudaginn 3. október í Samkomuhúsinu í Sandgerði. Viðburðurinn, sem bar yfirskriftina „Í góðum félagsskap,“ var einstaklega vel sóttur og fjölmargir eldri borgarar lögðu leið sína til að taka þátt í fjölbreyttri dagskrá og njóta góðs félagsskapar.
Viðburðurinn hófst kl. 13:00 með formlegri setningu þar sem gestir voru boðnir velkomnir. Eldeyjarkórinn steig síðan á stokk og flutti nokkur falleg lög sem hlýjaði gestum um hjartarætur.
Fyrsti liður á dagskránni var fyrirlestur Guðrúnar J. Hallgrímsdóttur um heilahreysti og minnisþjálfun, þar sem hún fjallaði um mikilvægi þess að viðhalda góðri andlegri heilsu og hvernig hægt er að efla minnisgetu með æfingum.
Á eftir fyrirlestrinum var boðið upp á kynningar á ýmsum úrræðum og þjónustu sem eldri borgurum stendur til boða í sveitarfélaginu. Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS) kynnti sína heilsueflandi móttöku, sem býður upp á einstaklingsmiðaða heilsuráðgjöf og mælingar. Öldungaráð Suðurnesjabæjar kynnti sína starfsemi og mikilvægi þess að hafa vettvang þar sem eldri borgarar geta haft áhrif á samfélagið. Félag eldri borgara í Vogum kynnti einnig sitt mikilvæga starf ásamt félagsstarfi eldri borgara í Suðurnesjabæ, sem býður upp á ýmis konar viðburði og tómstundir fyrir eldri borgara.
Einnig var kynning á hreyfiúrræðum fyrir eldri borgara, sem eru mikilvæg til að viðhalda góðri líkamlegri heilsu og auka vellíðan. Gestir gátu fengið heilsufarsmælingar á vegum HSS, og var það vel þegið af mörgum.
Viðburðinum lauk kl. 15:30 eftir skemmtilega og fróðlega stund. Gestir gátu einnig notið góðra veitinga, þar sem heitt var á könnunni og gestir fengu tækifæri til að spjalla saman og njóta samvista.
Það var ánægjulegt að sjá hversu fjölmennt var á þessum viðburði, sem endurspeglar áhuga eldri borgara á heilsu sinni og því frábæra félagsstarfi sem er í boði í Suðurnesjabæ. Viðburðurinn var mikilvægur vettvangur til að kynna þau úrræði sem eru í boði fyrir eldri borgara, og sýndi vel hversu mikilvæg samvera og heilsuefling er fyrir þennan hóp.
Við hlökkum til að sjá sem flesta á næstu viðburðum!