Fara í efni

Fisktækniskóli Íslands í Suðurnesjabæ

Fisktækniskóli Íslands í Suðurnesjabæ

Suðurnesjabær og Fisktækniskóli Íslands hafa gert með sér samning um að Fisktækniskólinn leigi hluta af húsnæði leikskólans Sólborgar í Sandgerði til eins árs. Þar með mun starfsemi skólans fara fram í Suðurnesjabæ næsta skólaár. Þetta eru ákveðin tímamót að því leyti að þá mun í fyrsta skipti fara fram skipuleg kennsla á framhaldsskólastigi í Suðurnesjabæ. Umrætt húsnæði er laust þar sem starfsemi leikskólans mun eftir sumarleyfi færast inn í nýja leikskólann Grænuborg.

Suðurnesjabær fagnar Fisktækniskólanum og er skólinn boðinn velkominn í Suðurnesjabæ. Við væntum góðs af samstarfi við skólann a.m.k. næsta árið, en Fisktækniskólinn hefur átt gott samstarf við sjávarútvegsfyrirtæki í Suðurnesjabæ á undanförnum árum. Eins og kunnugt er hefur starfsemi Fisktækniskóla Íslands verið í Grindavík en skólinn þurfti að færa starfsemi sína úr Grindavík sl. vetur þegar bærinn var rýmdur vegna náttúruhamfara.

Magnús Stefánsson bæjarstjóri og Klemens Sæmundsson skólameistari Fisktækniskóla Íslands undirrituðu samning um leigu á húsnæðinu nú í vikunni.